Mistur eftir Ragnar Jónasson er glæpasaga ársins í Bretlandi (e. Mystery Book of the Year) en hún fékk Capital Crime-verðlaunin sem tilkynnt var um í dag. Það er glæpasagnahátíðin Capital Crime í London sem stendur að verðlaununum ásamt útgáfuhluta Amazon-samsteypunnar.
Mistur var eina þýdda bókin sem tilnefnd var til verðlaunanna, en auk hennar voru tilnefndar Island of Secrets eftir Rachel Rhys, The Holdout eftir Graham Moore, The House Guest eftir Mark Edwards, og Rules for Perfect Murders eftir Peter Swanson.
Dómnefnd tilnefnir fimm bækur í nokkrum flokkum en síðan eru það lesendur sem hafa síðasta orðið um það hver hlýtur verðlaunin.
Þetta er í annað sinn sem Ragnar er tilnefndur til Capital Crime-verðlaunanna fyrir glæpasögu ársins en í fyrra var það fyrir Drunga. Báðar bækurnar eru í þríleik hans um lögreglukonuna Huldu. Mistur er lokabókin í bókaröðinni, en Dimma sú fyrsta.
Bækur Ragnars um Huldu hafa notið fádæma vinsælda og er þess skemmst að minnast að Mistur fór í efsta sæti þýska kiljulistans á dögunum. Þá hafa allar þrjár verið áberandi á kiljulistanum í Þýskalandi í sumar og í haust. Þessa vikuna verma þær annað, sjötta og þrettánda sæti listans.
Þá hefur bandaríski sjónvarpsrisinn CBS ákveðið að ráðast í gerð átta þátta sjónvarpsáttraðar um lögreglukonuna Huldu sem tekin verður upp hér á landi. Bækur Ragnars hafa selst í tæpum tveimur milljónum eintaka á heimsvísu, en þær eru gefnar út í um það bil 40 löndum á 27 tungumálum.