Listamaðurinn Guðrún Einarsdóttir opnar einkasýninguna Myndlist og hönnun í húsgagnaversluninni VEST á Dalvegi 30 í dag frá kl. 14-16. Sýningin stendur yfir til 4. maí.

Á sýningunni mun Guðrún sýna olíumálverk á striga í sínum einkennandi stíl. Í verkum Guðrúnar kallast á náttúruleg form og lög efnisins sjálfs, en vinnuaðferð hennar er nátengd rannsóknum á eðli olíunnar og efniviðarins.

„Guðrún Einarsdóttir er að mér finnst einn af okkar fremstu samtímalistamönnum og þekkt fyrir einstakan myndheim. Á þessari sýningu vinnur hún með mörk hins sýnilega og ósýnilega, náttúrunnar og samfélagsins, en það er einmitt þema alþjóðlegs baráttudags kvenna,“ segir Elísabet Helgadóttir eigandi VEST.

Guðrún Einarsdóttir (f. 1957) hefur starfað sem myndlistarmaður frá því hún lauk námi úr málunardeild og viðbótarári úr fjöltæknideild Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1989.

© Anna Kristín Óskarsdóttir (Anna Kristín Óskarsdóttir)

Í verkum sínum kannar hún landslag efniviðarins sjálfs, virkni olíuefnanna með tilraunum og hliðsjón af náttúruferlum og náttúrufyrirbærum.

Rík efniskennd og áferð einkenna verk Guðrúnar frá upphafi ferils.

Guðrún hefur tekið þátt í fjölda samsýninga auk einkasýninga á Íslandi og erlendis.