Japanska kvikmyndin Perfect Days, sem er nú sýnd í Bíó Paradís, fjallar um daglegt líf klósettvarðar í Japan sem keyrir á milli almenningssalerna í Tókýó hlustandi á rokktónlist.

Það var þýski leikstjórinn Wim Wenders sem leikstýrði myndinni en hann leikstýrði meðal annars Buena Vista Social Club, The Scarlett Letter og The Million Dollar Hotel með Mel Gibson.

Myndin hlaut verðlaun kvikmyndagerðarmanna og var Koji Yakusho, aðalleikari myndarinnar valinn besti leikarinn á Cannes kvikmyndahátíðinni 2023. Hún var einnig tilnefnd til Óskarsverðlaunanna sem besta erlenda myndin.

Koji Yakusho leikur klósettvörðinn Hirayama, sem lifir einföldu lífi í hljóðlátu hverfi í Shibuya í Tókýó. Hann hefur sínar daglegu rútínur sem einkennast af tónlist, vinnu, bókum og áhuga á trjám. Hann vaknar eldsnemma á hverjum morgni og vökvar plönturnar áður en hann fer á sendiferðabíl sínum með dós af köldu kaffi í hendi.

Eftir vinnu heimsækir hann svo baðhús og fær sér drykk á neðanjarðarbar þar sem gestir gæða sér á núðlum og horfa á hafnabolta. Hann lifir samkvæmt eigin orðatiltæki, sem er „næst er næst, núna er núna.“

Við fyrstu sýn virðist líf Hirayama afar einfalt og leiðinlegt, en myndin nær að fanga þann raunveruleika að jafnvel einföldustu hlutirnir í lífinu geta fært okkur mikla gleði. Á hverjum morgni þegar Hirayama fer út úr húsi horfir hann upp til himins og brosir þegar hann sér trén og laufblöðin í kringum sig.

Hann spilar rokktónlist á segulbandsspólum og kaupir sér reglulega notaðar bækur á hundrað krónur eftir höfunda eins og William Faulkner. Hann tekur svo skyndilega á móti frænku sinni sem virðist vera að flýja að heiman frá móður sinni og systur Hirayama, sem er augljóslega mun betur stæð fjárhagslega en hann.

Perfect Days er frábær mynd og jafnvel enn betri áminning um að oftar en ekki eru það einföldustu hlutirnir í lífinu sem veita okkur mestu hamingju. Að vísu er myndin örlítið löng miðað við söguþráð en engu að síður mega gestir búast við að yfirgefa bíósalinn með bros á vör.