Kanadíska kvikmyndin I Like Movies hóf nýlega göngu sína í Bíó Paradís en hún fjallar um 17 ára ungling sem er heltekinn af kvikmyndum og byrjar meðal annars að vinna á vídeóleigu.
Leikstjóri og handritshöfundur er Chandler Levack og er það Isaiah Lehtinen sem fer með aðalhlutverk myndarinnar. Krista Bridges og Percy Hynes White koma einnig fram en þau hafa unnið sér frægð í mörgum öðrum sjálfstæðum kvikmyndum.
I Like Movies gerist árið 2003, löngu fyrir tíma streymisáhorfs, þegar kvikmyndaunnendur um heim allan þurftu að fara út á vídeóleigu til að geta horft á bíómynd. Hinn 17 ára Lawrence er við það að klára menntaskóla og dreymir um að fara í kvikmyndaskóla í New York.
Það kemur mjög fljótlega fram að Lawrence er frekar einkennilegur strákur. Hann á aðeins einn vin, Matt, sem eyðir öllum laugardagskvöldum með honum í að horfa á Saturday Night Live. Hann býr þar að auki einn með móður sinni og myndast oft ágreiningur þeirra á milli um stefnu Lawrence í lífinu.
Lawrence sækir um í NYU-háskóla og meðan hann bíður eftir svari áttar hann sig á því að hann þarf einhvern veginn að greiða fyrir himinháu skólagjöldin. Hann fær sér vinnu á vídeóleigu þar sem frekar óeðlilegt samband myndast á milli Lawrence og yfirmanns hans, hana Alönu.
Samskipti Lawrence við fólkið í lífi hans byrja fljótlega að súrna og neyðist hann til að fara í gegnum ýmsar persónulegar breytingar með bæði þungum og sprenghlægilegum uppákomum.
I Like Movies er stórkostleg mynd sem fær alla á fertugsaldri til að átta sig á því hversu gamlir þeir eru orðnir. Myndin er líka með þeim fyrstu sem málar tímabil aldamótakynslóðarinnar með nostalgískum blæ. Á sama hátt og menntaskólanemar sjötta áratugarins horfðu á fortíð sína 20 árum seinna þegar Grease kom út, geta áhorfendur I Like Movies munað eftir póló-skyrtum, gömlum Adam Sandler-tilvísunum og dagsektum á óskiluðum spólum.
Höfundur á það einnig sameiginlegt með aðalpersónu myndarinnar að hann vann sjálfur á vídeóleigu, þó að vísu í Bandaríkjunum, þegar hann var 17 ára. Hann getur því staðfest hversu ótrúlega nákvæm myndin er þegar kemur að öllum smáatriðum. Vinnuskyrturnar, tölvukerfið og meira að segja litla bakherbergið með túbusjónvarpinu fengu höfund nánast til að geta fundið lyktina af teppinu og loftkælingunni sem fannst í öllum Blockbuster-vídeóleigum.