Eigendur Boston Celtics gáfu það út í gær að þeir hyggjast selja körfuboltaliðið. Tilkynningin kemur innan við mánuði frá því að Celtics unnu NBA-deildina í átjánda sinn og varð þar með sigursælasta lið í sögu bandarísku körfuboltadeildarinnar.

Eigendur Boston Celtics gáfu það út í gær að þeir hyggjast selja körfuboltaliðið. Tilkynningin kemur innan við mánuði frá því að Celtics unnu NBA-deildina í átjánda sinn og varð þar með sigursælasta lið í sögu bandarísku körfuboltadeildarinnar.

Talið er að metverð muni fást fyrir Celtics sem var metið á 4,7 milljarða dala af Forbes í október síðastliðnum. Núverandi eigandi, Boston Basketball Partners LLC, keypti liðið fyrir 360 milljónir dala árið 2020.

Í yfirlýsingu sagðist eigandinn gera ráð fyrir að selja meirihluta í Celtics á þessu ári eða snemma á næsta ári.

Eigendahópurinn er leiddur af hinum 63 ára gamla Wyc Grousbeck, vísifjárfesti frá Massachusetts, en fjölskylda hans fer með ráðandi hlut. Í yfirlýsingunni segir að ákvörðunin hafi verið tekin út frá fjölskylduhögum.

NBA-deildin á í viðræðum um næstu lotu sýningarrétta. Búist er við að deildin muni þéna ríflega tvöfalt meira heldur en núverandi samningur kveður á um, að því er segir í frétt Financial Times. Núverandi samningar skila deildinni að meðaltali 2,7 milljörðum dala á ári.

Virði NBA-liða hefur rokið upp úr öllu valdi á síðustu árum. Núverandi met yfir hæsta söluverð er frá árinu 2022 þegar 4 milljarðar dala fengust fyrir Phoenix Suns og systurlið þess Mercury í WNBA kvennadeildinni.

Boston Celtics höfðu betur gegn Dallas Mavericks í úrslitum NBA-deildarinnar í síðasta mánuði. Þetta var annar NBA- titillinn sem Celtics vann undir núverandi eigendum en síðasti bikar þar áður kom árið 2008.