Gamanmyndin Síðasta veiðiferðin hefur slegið í gegn í vor. Myndin fjallar um hóp karla sem fara saman í fjögurra daga veiðiferð norður í Mýrarkvísl. Einn af aðalleikurum myndarinnar er Halldór Gylfason, sem leikur Magga. Halldór þurfti ekki að læra neitt um veiði áður en hann hélt á tökustað því hann hefur stundað stangaveiði frá barnsaldri.

„Ég byrjaði að veiða með pabba mínum þegar ég var sex eða sjö ára,“ segir Halldór. „Frændi minn var með sambönd og við gátum veitt í Eiríksvatni, sem er skammt frá Skorradalsvatni og Kaldá á sunnanverðu Snæfellsnesi. Við veiddum silung í Eiríksvatni og fórum margoft í Kaldá en veiddum eiginlega aldrei neitt þar,“ segir hann og hlær. „Þrátt fyrir fiskleysið í Kaldá fannst mér alveg ótrúleg gaman að þessu.“

Fyrsta laxveiðiferðin

Þegar Halldór var tíu ára fór hann í sína fyrstu laxveiðiferð. „Afi minn, Viðar Pétursson, var í veiðifélaginu Þistlum, sem var með Sandá í Þistilfirði á leigu í marga áratugi. Foreldrar mínir veiddu oft þarna og þegar ég var tíu ára fékk ég að koma með í fyrsta skiptið og í Sandá fékk ég minn maríulax. Eftir það var ekki aftur snúið enda stórfengleg á. Ég fór með pabba og bróður mínum nokkrum sinnum í Langadalsá, sem var mjög skemmtilegt. Einnig fór ég tvisvar á fjórða svæðið í Stóru- Laxá í Hreppum, sem er æðislegur staður.

Ég fór í svona einn túr á hverju sumri allt þar til ég byrjaði að veiða með vinum mínum þegar var ég í kringum þrítugt. Framan af veiddi ég mest á spún og maðk og hafði mjög gaman af og skyldi ekkert í þessu flugusnobbi. Það breyttist fyrir svona fimmtán til tuttugu árum þegar ég byrjaði að kasta flugu. Það er náttúrlega miklu skemmtilegra — ég verð bara að viðurkenna það.

Þessi vinahópur fer einu sinni á sumri saman að veiða og fyrir nokkrum árum byrjaði ég líka að veiða með kollegum mínum, þeim Jóhanni Sigurðarsyni og Hilmi Snæ. Það er nú ekki amalegur félagsskapur enda eru þeir báðir þaulvanir veiðimenn. Hilmir Snær gædar á hverju á ári upp í Kjarrá og Jóhann er alinn upp skammt frá Brennunni í Borgarfirði og hefur því veitt síðan hann var gutti,“ segir Halldór, en Brennan er veiðisvæði, sem afmarkast af ármótum Þverár og Hvítár.

Of gott til að vera satt

Jóhann og Hilmir Snær Guðnason eru einmitt líka í stórum hlutverkum í kvikmyndinni Síðustu veiðiferðinni. Myndin var tekin upp síðasta sumar við Mýrarkvísl, sem er ein af mörgum hliðarám Laxár í Aðaldal. Í mjög stuttu máli fjallar myndin um sex vini, sem fara saman í veiði og í túrnum gengur á ýmsu.

„Þetta var æðislegur tími,“ segir Halldór þegar hann er spurður út í stemninguna við Mýrarkvísl. „Þarna vorum við öll saman á einum stað í tvær vikur í yndislegu veðri. Stemningin var frábær og það var mikið fjör. Það var bara svo gaman að gera þessa mynd og ég held að það skíni í gegn þegar fólk horfir á hana. Þegar við vorum ekki að taka upp þá máttum við veiða eins og við vildum sem þýðir að í dag gjörþekki ég þessa á enda búinn að ganga meðfram henni allri og prófa alla veiðistaði.

Umfjöllunarefni myndarinnar, að fara með vinum í veiði, er náttúrlega eitthvað sem ég og hinir leikararnir, þekkjum svo vel. Ekki nóg með það heldur vorum við líka að veiða þann tíma sem við vorum þarna. Það má segja að þetta hafi eiginlega verið of gott til að vera satt. Þegar við vorum búnir að taka upp sagði ég við félaga mína „nú get ég hætt í leiklist, ég á aldrei eftir að taka þátt í jafnskemmtilegu verkefni á mínum ferli“ — þetta var ævintýri líkast.

Þessi mynd er algjört must see fyrir alla sem veiða og hafa gaman af því. Veiðimenn tengja rosalega vel við þessa mynd en svo er það þannig að fólk sem hefur ekki verið í veiði hefur líka haft gaman af þessu. Ég held að það sé vegna þess að þetta er eitthvað svo íslenskt.“

Nánar er fjallað um málið í sérblaðinu Veiði, sem fylgir Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .