Hafnaboltatímabilið hjá atvinnuhafnaboltadeild MLB vestanhafs hófst formlega í síðustu viku og eru sérfræðingar strax farnir að spá fyrir velgengni Los Angeles Dodgers á tímabilinu eftir að hafa sigrað Chicago Cubs á tveimur opnunarleikjum í Tókýó.
Sigurvíma Dodgers í Japan var ekki síst táknræn þar sem stórstjarna liðsins, Shohei Ohtani, fékk að sýna hafnaboltahæfileikana í sínu heimalandi.
Umræðan í hafnaboltaheiminum undanfarna daga hefur þó beinst sérstaklega að nýrri kylfu sem ber heitið tundurskeytakylfan (e. torpedo bat) en hún er í laginu eins og tundurskeyti. Mörgum finnst hún hins vegar líta meira út eins og keila frekar en tundurskeyti.
Kylfan var hönnuð af prófessor úr MIT og frábrugðin hefðbundnum hafnaboltakylfum að því leytinu til að efsti hluti hennar er mjórri en meiri þunga er komið fyrir í miðjuhluta kylfunnar þar sem merkimiðinn er og þar sem leikmaður er líklegastur til að slá boltann.
Tundurskeytakylfan svokallaða hefur nú slegið aðdáendur jafn fast og boltinn en á fyrstu þremur leikjum sínum sló hafnboltaliðið New York Yankees nýtt met með því að ná 15 heimahlaupum (e. home runs). Yankees sigruðu þá alla sína þrjá leiki gegn Milwaukee Brewers frá Wisconsin og í leik tvö sló liðið annað met með því að sigra Brewers 20-9.