Nú fyrir jólin kemur út ný veiðibók eftir hinn kunna veiðimann Sigurð Héðin en það er bókaforlagið Drápa sem gefur bókina út.

Í bókinni, sem nefnist „Af flugum, löxum og mönnum“, fjallar Sigurður um nánast allt sem viðkemur veiðinni. Sem dæmi varpar hann ljósi á ólíkar veiðiaðferðir og kennir lesendum að lesa í vatn. Einnig er fjallað um veiðibúnað og sagðar veiðisögur. Þá eru í bókinni uppskriftir að veiðiflugum en Sigurður er einmitt einn fremsti fluguhnýtari landsins og oft kallaður Siggi Haugur en viðurnefnið er tilvísun í eina af hans þekktustu flugum, Hauginn. Bókina skreyta ljósmyndir eftir Kristin Magnússon og teikningar eftir Sól Hilmarsdóttur. Af flugum, löxum og mönnum kemur út í nóvember.