Ólafur Tómas situr ekki auðum höndum. Í vor hóf Stöð 2 að sýna sjónvarpsþættina Dagbók Urriða og um næstu jól er bók væntanleg frá Ólafi Tómasi.
„Ég get upplýst það núna að í sumar er ég að skrifa bók, sem bókaútgáfan Salka mun gefa út næstu jól,“ segir Ólafur Tómas. „Í bókinni ætla ég að fara mjög vel í silungsveiðina. Ég mun fara í veiði með veiðimönnum sem ég vil læra af, skoða helling af veiðisvæðum og reyna að verða betri veiðimaður sjálfur. Síðan ætla ég að miðla þessari reynslu áfram í bókinni, sem á að vera bæði skemmtileg og fróðleg.
Ég vona að endanleg niðurstaða verði skemmtileg ferðasaga, sem bæði veiðimenn og aðrir geti lesið og haft gaman af. Vonandi verður bókin tímalaus að því marki að í henni verði að finna fróðleik sem allir geti nýtt sér til þess að verða betri veiðimenn.“
Nánar er fjallað um málið í sérblaðinu Veiði, sem fylgir Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .