Kostir býþéttis (e. propolis) fyrir húðina eru margir – hann er bakteríudrepandi, sveppadrepandi, veirudrepandi og bólgueyðandi. Það er því ekki að undra að býþéttir sé nú eitt vinsælasta fegurðarefnið á samfélagsmiðlum.
En hvað er býþéttir nákvæmlega, hvaðan kemur hann og hvað gerir hann?
Býþéttir er efni sem býflugur vinna úr brumi aspar- og barrtrjáa, nokkurs konar trjákvoða sem þær nota til að húða bú sín til að hindra að veirur eða bakteríur komist inn. Efnafræðileg samsetning efnisins fer eftir plöntunni sem það kemur frá, en almennt er býþéttir samsettur úr kvoðu, bývaxi, ilmkjarnaolíum og frjókornum.
Býþéttir er ekki hunang, en hann hefur samt marga af þeim einstöku lækninga- og næringareiginleikum hunangs. Hann hefur verið notaður í þúsundir ára og hlutverk hans í dag er það sama og áður. Hann er notaður sem náttúrulegt sýklalyf sagt er að hann hjálpi til við að styrkja ónæmiskerfið og berjast gegn bakteríum, veirum og sveppum. Þó að kostir býþéttis fyrir húðina séu margir og fjölbreyttir, er sérstaklega mælt með honum fyrir þá sem eru að kljást við bólur, vegna örverudrepandi og bólgueyðandi eiginleika hans. Býþétti er hægt að taka inn í töfluformi, fljótandi eða bera á húðina.
Næstum allir geta notað efnið, en ef þú ert með ofnæmi fyrir býflugum eða hunangi, þá skaltu fara varlega. Ofnæmisviðbrögð geta komið fram sem roði á húðinni eða kláði. Ráðlegt er því að framkvæma ofnæmispróf áður en það er borið á húðina eða tekið í töfluformi. Ef þú ert ekki með ofnæmi geturðu litið á býþétti sem verndarhjúp fyrir húðina sem sagt er að geti hjálpað endurnýjun húðarinnar og flýtt fyrir gróanda á ör. Margar mismunandi vörur í boði sem innihalda býþétti; töflur (til þessa að draga úr særindum í hálsi), rakakrem (til þess að næra og endurnýja húðina) og andlitsvatn (til að róa húðina).