XM er mjög kraftalegur á að líta og gefur fyrirheit um hvað koma skal í akstrinum. Upplýst tvískipt grillið er einkenni BMW og M-deildin hefur látið setja mjó dagljós framan á bílinn sem lúkkar mjög kúl. Hliðarsvipurinn er flottur og stílhreinn. Að aftanverðu eru tvö sexhyrnd M-púströr áberandi og umlykjandi afturljósin og brettakantarnir kalla fram styrka ásýnd. Það er allt mjög pottþétt hér eins og vænta má frá BMW og M-deildinni þar á bæ.
M Lounge í aftursætunum
Bíllinn er með mikilli lúxusásýnd í innanrýminu og þar er allt sem á að einkenna fyrsta flokks lúxusbíl. Þykk leðursætin með upplýstum M merkjum í höfuðpúðunum, og upplýst loftklæðning ljá bílnum lúxusblæ. Skemmtileg stemningslýsing gefur enn meiri stemningu í innanrýminu. M Lounge-rýmið aftur í er íburðarmikið. Það er ekkert slor að sitja aftur í í þessum sportjeppa. Aftursætin eru með ólíkindum plássmikil og þægileg. Það eru meira að segja tveir koddar sem fylgja með ef farþegar vilja slaka sérlega vel á. Rúðurnar eru dekktar. Nýtt leður með gamaldags áferð skreytir hurðarklæðningar og mælaborð. Þetta efni er nú í fyrsta skipti notað í BMW. Samfelldur sveigður M-snertiskjár er áberandi í stjórnrými ökumanns. Hann sameinar 12,3 tommu mælaskjá og 14,9 tommu stjórnskjá með snertistjórnun. Skjárinn er þægilegur og einfaldur í notkun. Þessi skjár er ákveðið augnayndi eins og margt annað í innanrými bílsins.
Ný 4,4 lítra V8 vél undir húddinu
XM er knúinn af nýrri 4,4 lítra V8 vél með tvöfaldri forþjöppu og rafhlöðu. Átta strokka vélin er tengd við 25 kWh rafhlöðu sem knýr rafmótor sem er tengdur átta gíra sjálfskiptingu bílsins og sendir gríðarlegt aflið til allra fjögurra hjólanna í gegnum M xDrive drifrás BMW. Heildarafköst eru 653 hestöfl og 800 Nm tog, en rafmótorinn getur skilað 194 hestöflum á eigin spýtur í allt að 10 sekúndur (afganginn af tímanum er hann með 161 hestafl) og 450 Nm tog. 4,3 sekúndur í hundraðið. XM er með allt að 80 km drægni á rafmagninu en eftir það tekur hin aflmikla 8 strokka bensínvél við með tilheyrandi M-hljóði sem gefur akstrinum enn meiri dýpt. XM er 4,3 sekúndur úr kyrrstöðu í hundrað. M1 og M2 hnapparnir á stýrinu gera ökumanni kleift að stilla aksturinn eftir eigin höfði. Hægt er að stilla drif, undirvagn, stýri, hemla og aldrifskerfi M X-Drive. Svo ýtir maður bara á hnapp til að skipta á milli rafdrifsins og Hybrid-stillingarinnar þar sem rafmótorinn og öflug V8-vélin vinna saman. M-Hybrid í þessum bíl er fyrsta rafknúna M-drifið sem er svona afkastamikið.
Skuggalega aflmikill
Aksturseiginleikarnir eru afar góðir og það er gríðarlega skemmtilegt að keyra þennan sportjeppa. Bíllinn er skuggalega aflmikill og fljótur upp. Vavetronic ventakerfið og hárnákvæm innspýting skila geggjuðu afli. Bíllinn er með frekar stífri fjöðrun sem gerir bílinn sportlegri án þess að það komi niður á þægindunum. XM er með M-sport mismunadrifi sem skilar bestu afköstum að sögn BMW á vegum úti hvort sem ekið er á bundnu eða óbundnu slitlagi. Það dreifir drifkraftinum á milli afturhjólanna eftir aksturskilyrðum og eykur þannig grip og stöðugleika í akstri við ýmsar aðstæður, léttar sem krefjandi. Það má með sanni segja að XM sé sportjeppi sem sameinar lúxus, afköst og rafvæðingu.
Innblásinn af Concept XM
XM er innblásinn af Concept XM sýningarbílnum sem kynntur var á síðasta ári. Sá fékk að vonum mikla athygli sem og hinn nýi XM nú. Nýr XM er með sama framenda, hækkandi afturlínu og minni glugga.