Nýr klúbbur sem hefur það markmið að sameina fólk sem elskar portúgalskan mat og vín hefur opnað í Bretlandi. Klúbburinn ber heitið Matriarca og er árlegt meðlimagjald í honum 130 þúsund krónur.
Stofnendur klúbbsins er Symington-fjölskyldan sem framleiðir meðal annars Douro, Alentejo, Vinho Verde og púrtvínin Graham‘s og Dow‘s.
Innifalið í verðinu eru sex flöskur af portúgölskum vínum og púrtvínum og fá meðlimir einnig boðsmiða á einkaviðburði þar sem hægt er að smakka portúgölsk vín. Meðlimir fá þar að auki aðgang að netverslun þar sem hægt er að kaupa eldri vínflöskur og nýjar flöskur sem eru ekki enn komnar á markað.
Symington-fjölskyldan byrjaði með klúbbinn í október á þessu ári en hún er þegar komin með yfir 100 meðlimi. Einn meðlimur fjölskyldunnar, Charlotte Symington, segir að fjölskyldan sé hæstánægð með að hafa flutt Matriarca til Bretlands.
Meðlimir sem heimsækja Portúgal geta einnig notið afsláttar og fríðinda á veitingastað fjölskyldunnar, kjöllurum og vínekrum.