Bílasala tók við sér í maí eftir magra fjóra mánuði á undan, þó samdráttur hafi verið milli ára alla mánuðina.

Samdrátturinn í maí nam aðeins 22% í samanborið við 49,5% samdrátt fyrstu fjóra mánuðina. Samdrátturinn milli ára er í heild 38%.

Þetta kemur fram í Bílum, sérblaði Viðskiptablaðsins, sem kom út í morgun. Áskrifendur geta lesið blaðið hér.

Sala á lúxusbílum hefur dregist aðeins meira saman en öðrum fólksbílum eða um 42%.

Bílaframleiðendur hafa orðið mjög mismunandi fyrir barðinu á himinháum stýrivöxtum Seðlabanka Íslands sem eru afleiðing gríðarlegrar útgjaldaaukningar og hallareksturs ríkissjóðs.

Flokkun lúxusbíla er ekki einföld og sitt sýnist hverjum um hana. Það sem hefur skekkt samanburðinn hin síðari ár er miklu breiðara vöruúrval bílaframleiðendanna.

Þannig fellur til dæmis smábíll frá lúxusbílamerki í sama flokk og sannkallaður lúxusbíll, líkt og BMW 7, Range Rover, Audi A8 eða Mercedes-Benz S-Class.

Range Rover fyrir meira en milljarð

Land Rover á Íslandi hefur selt flesta lúxusbíla á árinu eða 208. Samdrátturinn í sölu hjá Land Rover er aðeins 7%. Defender er sem fyrr mest seldur en 81 bíll var skráður.

Fyrstu bílarnir af G-Class í rafútgáfu koma í sumar til Íslands.

Geländewagen fyrir 270 milljónir

Þrátt fyrir almennan samdrátt selst G jeppinn vel og voru sex jeppar skráðir á tímabilinu. Þar af einn 63 AMG sem kostar í kringum 60 milljónir.

Rafútgáfan af bílnum er á leið til landsins síðar í sumar í First Edition útgáfu.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins eru fimm First Edition bílar seldir. Í byrjun ársins hefst framleiðsla á rafmagns G jeppum í „venjulegri“ útgáfu. Þeir kosta vel búnir rétt tæpar 30 milljónir króna.

Nánar má lesa um sölu á lúxusbílum fyrstu fimm mánuði ársins í Bílum, sérblaði Viðskiptablaðsins, sem kom út í morgun.