Dr. Erla Björnsdóttir er stofnandi og framkvæmdastjóri Betri svefns, en hún kynnti nýlega til sögunnar nýtt snjallforrit, She-Sleep, sem er fyrsta svefnforritið í heiminum sem er eingöngu fyrir konur.

Að mati Erlu má margt bæta innan heilbrigðiskerfisins til þess að veita einstaklingum betri þjónustu á skemmri tíma.

„Heilbrigðiskerfið er ekki að grípa fólk nógu snemma og bjóða upp á bestu mögulegu meðferð. Klínískar leiðbeiningar frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni segja að nota eigi hugræna atferlismeðferð sem fyrstu lausn við langvarandi svefnleysi en það hefur verið lítið aðgengi að henni og sálfræðimeðferð ekki enn orðin niðurgreidd af hinu opinbera.“

Erla segir að stór hópur fólks gæti verið að nýta sér lausnir sem eru nú þegar til staðar en ekki er verið að innleiða.

„Það er svo skrítið að vera að fá styrki frá hinu opinbera til þess að búa til lausn, svo er lausnin tilbúin, byggð á vísindalegri þekkingu en það vill enginn nota hana vegna þess að þú ert einkaaðili og það má ekki leiða þetta saman. Það eru mörg dæmi um það að verið sé að nota íslenskt hugvit erlendis en það má ekki nota það hér. Hér fer ekki alveg saman hljóð og mynd.“

Erla telur þó að von sé á breytingum innan kerfisins í tengslum við nýsköpun.

„Mér finnst eins og þetta sé að breytast og ég held að það þær áherslur sem hafa verið hjá Nýsköpunarráðuneytinu hafi mikið með það að segja. Við erum núna í mjög spennandi samstarfi með heilsugæslunni þar sem við erum að nota rafrænu meðferðina og það er að gefa góða raun. Þetta er hluti af Fléttunni, sem er styrkveiting sem kemur fyrir tilstilli Áslaugar Örnu og hennar ráðuneytis, sem felst í því að leiða saman nýsköpun og heilbrigðiskerfið. Auðvitað á að nota opinbera kerfið og einkaaðila saman, aðila sem er búið að fjárfesta í með opinberu fé.“

Viðtalið við Erlu Björnsdóttur er að finna í blaðinu Eftir vinnu sem kom út á miðvikudaginn. Áskrifendur geta lesið viðtalið í heild hér.