Breska samkeppniseftirlitið segir að Ticketmaster gæti hafa platað Oasis-aðdáendur með óljósu verðlagi þegar fyrirtækið byrjaði að selja miða á endurkomutónleika hljómsveitarinnar á síðasta ári.

Á vef BBC kemur fram að eftirlitið telji Ticketmaster hafa til að mynda brotið neytendalög með því að selja svokallaða platinum-miða, sem voru um 2,5 sinnum dýrari en almennt miðaverð, án þess að útskýra hvað það var sem nákvæmlega fylgdi með miðanum.

Hátt í 900 þúsund miðar seldust á endurkomutónleika Oasis þegar miðasala hófst þann 31. ágúst í fyrra.

Margir aðdáendur urðu hins vegar fyrir vonbrigðum þegar miðar, sem auglýstir voru á 135 pund (23 þúsund krónur), hækkuðu allt í einu upp í 355 pund (61 þúsund krónur) auk gjalda vegna mikillar eftirspurnar.

Samkeppniseftirlitið segist vera að leita leiða til að gera breytingar á því hvernig Ticketmaster veitir viðskiptavinum upplýsingar og segist fyrirtækið fagna öllum ráðum.