Í nýrri bók sem Ásgeir Jónsson Seðlabankastjóri hefur gefið út segir frá æfi og baráttu Jóns Arasonar síðasta kaþólska biskupsins á Íslandi, og forföður allra núlifandi einstaklinga af íslenskum uppruna, og dauða hans árið 1550 sem flest börn læra um í skólum.
Bókina býður Ásgeir og Bókafélagið tiltölulega ódýrt miðað við bókaverð í dag, eða á 2.999 krónur, og er jafnframt hægt að panta hana áritaða með tölvupósti með nafni og kennitölu og beiðni um áritun á netfangið [email protected].
Bókin verður gefin út í einungis 1.000 eintökum, en Ásgeir segir viðtökurnar á facebooksíðu sinni mun betri en hann hafi búist við enda ekki vitað hversu mikill áhugi væri til staðar.
Ásgeir segir að hann hafi lengi haft bókina í smíðum en áhuginn á sögupersónunni hafi vaknað þegar hann ólst upp á Hólum í Hjaltadal, biskupssetri Jóns, en hann var einmitt hálshöggvinn fyrir hartnær 470 árum í nóvember.
Jón hafi tekist að leiða hjá sér siðaskiptin í nær áratug með samningi við Danakonung en eftir að verslunarstríð hófst árið 1547 þegar Danir reyndu að ryðja Þjóðverjum á burt hafi Jón gripið tækifærið og hafið vopnaða uppreisn með stuðningi Þjóðverja.
Mörgum sem lærði um sögu Jóns Arasonar gæti komið spánskt fyrir sjónir að hann hafi verið í bandalagi við Þjóðverja og boðið Þýskalandskeisara að innlima landið árið 1550 en sagan fór öðruvísi eftir að hann tapaði orrustunni á Sauðafelli sama haust og var hálshögginn ásamt tveimur sonum sínum í kjölfarið.
Hins vegar vita flestir að í kjölfar þess sölsaði Danakonungur undir sig auðlindir Íslands, jarðeignir, fisk og brennistein, og lokaði á samskipti Íslendinga við erlendar þjóðir með verslunareinokun. Í lokin segir á baksíðu bókarinnar að við hafi svo tekið hinar myrku aldir Íslandssögunnar með fátækt og einangrun.