Söngvarinn Emilio Santoro sigraði The Ultimate Elvis Tribute Artist Contest sem haldið var á Graceland-búgarðinum, heimili konungs rokksins í Memphis Tennessee, um helgina.

Viðburðurinn í Graceland er bæði sá eftirsóttasti og sá eini sem Elvis Presley Enterprises leggur blessun sína yfir og dregur því að alla bestu Elvis-flytjendur heimsins. Alls tóku tíu söngvarar þátt í úrslitunum og Santoro stóð uppi sem sigurvegari.

Santoro er á leið til Íslands en hann mun stíga á svið í Eldborgarsal Hörpu þann 20. september nk. og skemmta íslenskum Elvis-aðdáendum. Kappinn mætir því í toppformi til Íslands frá Graceland með sína margverðlaunuðu sýningu Emilio Santoro sem Elvis og aðeins þetta eina kvöld.

Alls tóku tíu söngvarar þátt í úrslitunum og Santoro stóð uppi sem sigurvegari.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Söngvarinn mun troða upp með níu manna hljómsveit, The Creoles, og túlkar Elvis á yngri árum með lögum á borð við Jailhouse Rock, Devil in Disguise, Can’t Help Falling in Love, Hound Dog, Always on My Mind og fleirum.

„Ég er mjög spenntur að koma til Íslands í fyrsta sinn og skemmta í Hörpu. Við munum hristast öll saman í Hörpu,“ segir hinn 21 árs gamli Santoro, sem kom fyrst fram í Bandaríkjunum í Memphis, heimaborg Elvis, þegar hann var aðeins 17 ára.