Fern Brady er skoskur grínisti sem er nú stödd á Íslandi sem þátttakandi í Reykjavik Fringe hátíðinni. Hún flutti sína síðustu sýningu, Autistic Beauty Queen, í Tjarnarbíó í gær fyrir nær fullum sal áhorfenda.

Hún komst fyrst í kynni við Ísland þegar hún og Ari Eldjárn skemmtu saman á listahátíðinni í Melbourne í Ástralíu. „Ég hafði mjög gaman af því að hlusta á Ari og hvernig hann lýsti Íslandi þannig ég fékk mikinn áhuga á landinu.“

Fern segir að það komi henni mikið á óvart hversu svipaðar þjóðir Ísland og Skotland eru. Að hennar sögn er maturinn mjög svipaður og finnst henni mjög fyndið að vera í landi þar sem allir þekkja alla. „Mér finnst eins og ég hef komið hingað áður en ég hef samt aldrei komið hingað áður.“

Hún starfar nú sem uppistandari en á sér einnig mjög áhugaverðan bakgrunn sem hún fjallar mikið um í sýningunni.

Á meðan Fern var í námi við háskólann í Edinborg vann hún sem ritstjóri skólablaðsins, The Student. Til að geta átt fyrir skólagjöldum vann hún sem strippari og útskrifaðist svo með BA gráðu í arabísku og sögu íslam. Eftir útskrift fór hún í blaðamennsku en hún segist hafa viljað fara í uppistand alveg síðan 2006. Þremur árum seinna var hún í starfsnámi hjá Fest Magazine, tímarit sem sérhæfir sig í Edinborgar Fringe hátíðinni og var var eitt af verkefnum hennar að skrifa um uppistand. Að sögn hennar var þetta verkefnið sem leiddi hana út í það að verða sjálf uppistandari.

Fern er uppistandari á heimsmælikvarða en ber sig með mikilli hlýju og hógvægni. Skoski hreimurinn hennar er skemmtileg viðbót við þá sprenghlægilegu brandara sem hún segir um London og hjónabönd.

Í samtali við Viðskiptablaðið segir Fern að listahátíð sem þessi þjóni miklum tilgangi fyrir þá sem eru að íhuga að gerast uppistandarar.

„Ég held að það sé mikilvægt fyrir alþjóðlega uppistandara að koma hingað og eins fyrir þá sem eru héðan og vilja gerast uppistandarar að sjá þá. Fyrir mig til dæmis, ég er líka frá litlu landi og þegar ég byrjaði sá ég sömu tegund uppistandara frá mínu landi en Fringe hátíðin í Edinborg hjálpaði mér rosalega því ég sá uppistandara frá öllum heimshornum,“ segir Fern.