Aðdáendur leikstjórans Wes Anderson geta svo sannarlega glaðst yfir nýjustu kvikmynd hans, Asteroid City, sem frumsýnd var í Bíó Paradís á miðvikudaginn. Kvikmyndin sló rækilega í gegn á nýliðinni kvikmyndahátíð í Cannes en nokkrir af þekktustu leikurum heims koma fram í myndinni.

Það eru þau Jason Schwartzman, Scarlett Johansson, Tom Hanks, Tilda Swinton, Bryan Cranston, Edward Norton, Adrien Brody, Matt Dillon og Steve Carrell sem fara með aðalhlutverk. Willem Dafoe lætur einnig sjá sig í nokkrum senum.

Asteroid City gerist í skálduðum bandarískum eyðimerkurbæ árið 1955 þar sem nokkrir ungir snillingar koma saman á stjörnuskoðunarráðstefnu. Myndin byrjar með kynningu Bryan Cranston á myndinni sjálfri sem gerist í raun í formi leikrits. Þegar „leikritið“ byrjar breytist þá sjónarhornið í kvikmynd og fá þá áhorfendur að sjá lest ferðast um eyðimörkina í átt að hinum skáldaða bæ. Um borð í lestinni má sjá ýmsa muni frá sjötta áratug seinustu aldar eins og gamla bleika Cadillac bíla og í samræmi við húmor Wes Anderson er lestin einnig að ferja kjarnorkusprengju sem á stendur: „Ekki sprengja án leyfis frá forseta Bandaríkjanna.“

Meðal þeirra sem mæta á ráðstefnuna er stríðsljósmyndarinn Augie Steenbeck og börnin hans fjögur. Fljótlega fá áhorfendur að komast að því að kona hans lést þremur vikum á undan en hann hefur ekki enn haft það í sér að segja börnunum sínum frá því. Hér sést einnig hversu vel Wes Anderson nær að nota svartan húmor í söguþræði sínum.

Augie fer fljótlega að falla fyrir frægu leikkonuna Midge Campbell, sem leikin er af Scarlett Johansson. Hún er einnig á ráðstefnunni ásamt dóttur sinni sem er, eins og sonur Augie, snillingur. Áhorfendur fá að kynnast uppfinningum þeirra og þeim skemmtilega karakter sem þau búa öll yfir.

Þegar ráðstefnan byrjar fara hins vegar skrítnir hlutir að gerast sem munu breyta heiminum. Fljúgandi furðuhlutir og hermenn láta sjá sig á meðan hóteleigandinn í Asteroid City, leikinn af Steve Carrell, selur bæði kokteila og lóðir úr sjálfsölum.

Asteroid City er stórkostleg mynd þar sem bestu eiginleikar Wes Anderson skína bjart í gegnum hvíta tjaldið. Þrátt fyrir miklar uppákomur í myndinni er enginn óþarfa hasar á milli persóna og er fjórði múrinn brotinn á skemmtilegustu tímum. Það er augljós ástæða fyrir velgengni myndarinnar.