Sjöunda vefuppboðið sem Listaverk.is og Listheimar efna til er í fullum gangi og stendur yfir til mánudagsins 9. desember. Uppboðið samanstendur af 59 verkum. Verkin eru fjölbreytt og úrvalið spannar alla verðflokka, mörg hver sem henta vel sem jólagjöf.
Á meðal verka sem má finna á uppboðinu er sögufrægt samstarfsverk Þórarins B. Þorlákssonar og Muggs.
Verkið er olíuverk af sjávarþorpinu Þingeyri í kringum annan áratug 20. aldar. Það er merkt bæði Þórarni B. Þorlákssyni og Guðmundi Thorsteinssyni (Muggi) og var sýnt á yfirlitssýningu Muggs í Listasafni Íslands árin 2021 og 2022.
Verðmat verksins er á bilinu 3 til 4 milljónir króna, að því er kemur fram á vefsíðunni listaverk.is.
Hægt verður að skoða verkin í sýningarsal við Súðarvog 48. Opið verður um helgina milli klukkan 13 og 15 og á lokadegi uppboðsins, mánudaginn 9. desember milli 13 og 18.
Í samstarfi við Listheima
Listaverk.is er stafrænt uppboðshús sem sér um vefuppboð á listaverkum í samstarfi við galleríið Listheima.
Daníel Orri Árnason og Sindri Már Friðriksson, listunnendur, starfrækja vefinn en Viktor Pétur Hannesson, uppboðsstjóri, rekur galleríið Listheima. Hafa þeir í sameiningu reglulega haldið uppboð á listaverkum.
„Rafræna uppboðskerfið okkar gerir notendum kleift að kaupa og selja listaverk í gegnum vefinn. Við erum afskaplega ánægðir og þakklátir fyrir viðtökurnar sem við höfum fengið,“ segir Sindri Már í samtali við Viðskiptablaðið.