Nú fer að líða að jólum og í tilefni þeirra gera margir Íslendingar vel við sig með því að fara á jólahlaðborð. Jólaandinn svífur yfir vötnum og iðulega má heyra ljúfa tóna yfir borðhaldi meðan gestir njóta dýrindis jólakræsinga. Viðskiptablaðið tók saman nokkur sýnishorn af þeim fjölmörgu jólahlaðborðum sem í boði eru og ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Mikilvægt er að panta borð tímanlega, þar sem margir staðir eru þegar að verða þéttbókaðir. Börn á aldrinum 6-12 ára greiða yfirleitt hálft gjald og börn yngri en 5 ára greiða ekkert.

Grand jólahlaðborð

Grand Hotel Reykjavík býður til jólaskemmtunar með sérstakri hátíðarstemningu. Úlfar Finnbjörnsson yfirmatreiðslumeistari mun sjá um að framreiða yfir 50 jólarétti með villibráðarívafi. Meðal þessara rétta eru hrefnurúlla, grafin gæs, reykt nautatunga, léttsteiktir dádýravöðvar og creme brulee. Jólahlaðborðið verður á föstudags- og laugardagskvöldum frá 16. nóvember til 15. desember. Á föstudagskvöldum mun Haukur Heiðar úr Diktu og Þorbjörn Sigurðsson leika létt og skemmtileg lög fyrir hlaðborðsgesti. Á laugardögum munu svo Magnús Þór Sigmundsson og Jóhann Helgason skemmta gestum með ljúfri jólastemningu. Helsta áhersla Grand jólahlaðborðs er að njóta og eiga huggulega kvöldstund með fólkinu í kringum okkur. Verð á mann: 11.500 kr. Einnig er hægt að bóka jólahlaðborð með gistingu og morgunverði og kostar það 19.800 kr.

Glæsileg jólaumgjörð á Hilton

Hilton Reykjavík Nordica býður upp á glæsilega umgjörð í aðdraganda jóla nú sem endranær. Jólahlaðborðið verður alla föstudaga og laugardaga frá 16. nóvember til 15. desember og opnar salurinn kl. 19.30. Hlaðborðin sjálf verða líkt og síðustu ár sett upp í forrými með fjölmörgum lifandi stöðvum þar sem gestir geta notið þess að spjalla við matreiðslumenn hússins og fræðast um jólamatinn. Meðal kræsinga sem verða á boðstólum er reyktur lax, hreindýrapaté, grafnar gæsabringur, tvíreykt hangikjöt, kalkúnn og Risalamande. Skemmtikraftarnir góðkunnu, Jogvan Hansen, Vignir Snær og Selma Björnsdóttir, munu sjá um að skemmta gestum yfir borðhaldi og slá svo upp dansleik að því loknu. Um helgar býður veitingastaðurinn VOX upp á bröns og hádegisverðarhlaðborð á virkum dögum, en opnunartíminn er 11.30-14.00 mánudaga til laugardaga, en á sunnudögum er opið frá 11.30-15.00. Verð á mann: 11.900 kr., 4.950 kr. fyrir hádegisverðarhlaðborð á virkum dögum og 5.450 kr. fyrir bröns um helgar.

Jólagleði í Perlunni

Veitingastaðurinn Út í bláinn , sem er undir glerkúpli Perlunnar, býður upp á glæsilegt jólahlaðborð þar sem gestir geta notið þess stórbrotna útsýnis sem staðsetningin hefur upp á að bjóða. Á hlaðborðinu eru í boði fjölmargir spennandi réttir og ber þar helst að nefna rjúpusúpu, jólakryddaða purusteik, grillaða rauðhjartarsteik og heileldað nauta rib-eye, auk þess sem matreiðslumenn Út í bláinn útbúa glæsilegt eftirréttahlaðborð í samstarfi við bakarameistara og kökugerðamenn Kruðerís. Jólahlaðborðið verður aðgengilegt alla daga frá 16. nóvember til 23. Desember frá kl. 18.00. Verð á mann: sunnudaga-miðvikudaga 8.500 kr. og fimmtudaga-laugardaga 9.900 kr. Auk þess verður jólabröns í boði allar helgar á fyrrnefndu tímabili milli 11.30 og 17.00.

Hátíðarblær í Garðabæ

Matreiðslumeistararnir Fannar Vernharðsson og Garðar Aron Guðbrandsson munu bjóða upp á glæsilegt jólahlaðborð á Mathúsi Garðabæjar í ár. Jólahlaðborðið hefst 16. nóvember og frá og með 17. nóvember er einnig jólabröns um helgar. Forréttir á borð við villisveppasúpu og eftirréttir eins og Risalamande eru bornir fram á borðið. Auk þess er steikarhlaðborð með kalkún, nautalund og purusteik. Einnig er að finna á hlaðborðinu rótargrænmeti, grafinn lax, sykurbrúnaðar kartöflur, eplasalat og kartöflugratín. Mathús Garðabæjar er til húsa að Garðatorgi 4b í Garðabæ. Verð á mann: 9.900 kr. föstudaga og laugardaga, 8.500 kr. sunnudaga til fimmtudaga, 4.500 kr. fyrir jólabröns.

Heimavöllur sælkerans

Kolabrautin á efstu hæð í Hörpu býður upp á jólahlaðborð sem ætti að standast kröfur sælkerans. Gestir geta byrjað á nokkrum mismunandi forréttum, meðal annars humar og graskers „bisque" súpu og engifer-kryddlegnum lax. Þá eru í boði fjölmargir aðalréttir, ber þar helst að nefna ristaða gæsabringu, hægeldaða rifjasteik og svína purusteik. Næst kemur röðin að eftirréttahlaðborðinu, þar sem má meðal annars má finna „eggnog", creme brulee og ostaköku með jarðarberjum. Því ætti enginn að ganga svangur frá borði. Skreytingar eru hóflegar en gestir geta virt fyrir sér jólaskreytingar í borginni með einstöku útsýni yfir Reykjavíkurhöfn. Jólahlaðborðið verður aðgengilegt 15. nóvember-23. desember. Verð á mann: 9.900 kr.

Nánar má lesa um málið í Jólagjafahandbókinni, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .