Mat Ishbia, forstjóri United Wholesale Mortgage, hefur náð samkomulagi um helstu skilmála 4 milljarða dala kaupsamnings, eða sem nemur 570 milljörðum króna, um kaup á NBA körfuboltaliðinu Phoenix Suns í Arizona-fylki.

Um að ræða stærstu kaup allra tíma á NBA-liði, gangi viðskiptin í gegn. Fyrra metið átti Joe Tsai, meðstofnandi Alibaba Group, en hann keypti Brooklyn Nets og Barclays Center leikvanginn fyrir 3,3 milljarða dala árið 2019.

Talið er að WNBA kvennaliðið Phoenix Mercury sé innifalið í kaupunum. Meðal leikmanna Mercury er Brittney Griner, sem var nýlega sleppt úr haldi af rússnesku fangelsi.

Auðæfi Bandaríkjamannsins Mat Ishbia eru metin á 4,7 milljarða dala, eða um 670 milljarða króna, samkvæmt rauntímalista Forbes. Hann spilaði körfubolta á sínum tíma og var hluti af liði Michigan State Spartans sem sigraði NCAA deildina árið 2000.

Bróðir hans Justin Ishbia, einn stofnenda Shore Capital, mun einnig leggja fram umtalsverða fjárhæð í viðskiptunum. Auður Justin Ishbia er metinn á 2,1 milljarð dala.

Körfuboltagoðsögnin Earvin „Magic“ Johnson fagnaði kaupum Mat Ishbia á Twitter og sagði að hin 29 liðin í deildinni ættu að gæta sín.