Nýútkomnar endurminningar Guðmundar Hafsteinssonar hafa vakið nokkra athygli á aðventunni hjá áhugamönnum um nýsköpun og fjárfestingar, en Gummi er líklega á meðal þeirra Íslendinga sem hafa gert það hvað best í Kísildal.
Gummi starfaði hjá Google, Siri og Apple þar til hann stofnaði eigið fyrirtæki á sviði gervigreindar árið 2012. Google keypti fyrirtækið árið 2014 og var Gummi hátt settur á sviði gervigreindaraðstoðarmanna hjá fyrirtækinu þegar mesta byltingin varð í sögu tækninnar þar fyrir nokkrum árum.
Nú hefur Snorri Másson, nýkjörinn þingmaður og áður blaðamaður, skráð endurminningar Gumma sem rekja allt frá upphafi hans við tölvufikt á níunda áratug síðustu aldar. Sagan er lýsing á því hvernig menn fara að því að ná langt í þessum flókna heimi en um leið ákveðinn aldarspegill um tækni sem hefur breytt lífi allra jarðarbúa.
Í myndbandi sem Snorri dreifir á samfélagsmiðlum setur hann fram gátu:
„Hvað eiga þessir menn sameiginlegt? Mark Zuckerberg forstjóri Facebook, Steve Jobs stofnandi Apple, Jeff Bezos stofnandi Amazon, Sergey Brin og Larry Page stofnendur Google og Eric Schmidt forstjóri Google um tíma? Jú, allir hafa þeir átt fagleg samskipti við, fundað með eða starfað náið með þessum íslenska frumkvöðli, Guðmundi Hafsteinssyni.“
Allt er þetta rakið í smáatriðum í bókinni en hér skal látið nægja að gefa innsýn í lýsingar Gumma á örlagaríkum fundi þar sem Steve Jobs mætir persónulega til starfsmanna Siri, þar sem Gummi er yfir vöruþróun, og tilkynnir þeim um miklar breytingar á þeirra högum.
Fólk beið átekta í rólegheitunum og ég minnist þess að hafa gægst út um gluggann hvort bifreið Steve Jobs færi ekki að birtast. Það gerðist loks og áður en við vissum af var hann kominn inn á gang til okkar og svo inn í fundarherbergi. Það kom fát á alla viðstadda. Jobs áttaði sig á að hann yrði að vinda sér beint að efninu. Hann gerði í stuttu máli grein fyrir kaupum Apple á Siri og skilaboð hans voru þau að nú væru allir, sem þarna voru, velkomnir yfir til Apple þar sem við ætluðum að breyta heiminum saman. Hér með væri Siri komin með aðgang að öllum innviðum Apple til að taka tæknina á næsta stig. Flestir göptu af undrun enda grunlausir um að þetta stæði til. Auðvitað var þetta ekki út í hött og það mátti gefa sér að Apple kynni að hafa áhuga á tækni af þessum toga, en það er langur vegur milli slíkra getgáta og þess að fá sjálfan Steve Jobs inn á skrifstofu til sín á fimmtudagsmorgni. Nú voru nýir og spennandi tímar í vændum.
Í fylgd með Jobs var Scott Forstall, maðurinn á bak við iOS-stýrikerfið. Þessa sömu tvímenninga hafði ég hitt þremur árum áður þegar við unnum að kortaforritinu fyrir nýja iPhone-inn. Síðan hafði mikið vatn runnið til sjávar. Frá því að iPhone var kynntur í byrjun 2007 og fram á vor 2010 hafði Apple þrefaldast að stærð og vöxturinn helgaðist fyrst og fremst af iPhone og App Store. Jobs og Forstall höfðu gegnt lykilhlutverki í allri þessari framþróun. Þetta voru miklir atorkumenn eins og ég hafði kynnst í okkar samstarfi á árum áður. En þótt framtíð Apple væri björt var farið að síga á ógæfuhliðina hjá Steve Jobs. Miklar getgátur höfðu verið á sveimi um heilsu hans um árabil.
Siri-kaupin voru tilkynnt í lok apríl 2010. Fyrstu merki um heilsubrest hjá Jobs komu fram árið 2003 þegar hann greindist með sjaldgæft briskrabbamein. Eftir læknismeðferð hélt hann þó áfram störfum, án þess að frekar væri fjallað um veikindi hans. Árið 2008 fóru sögusagnir aftur á flug um veikindi hans. Þá var hann búinn að léttast svo að eftir því var tekið. Í ársbyrjun 2009 fór hann í hálfs árs veikindaleyfi vegna þess sem hann kallaði hormónaójafnvægi en það ár undirgekkst hann jafnframt lifrarígræðslu. Um mitt ár 2009 var Jobs síðan kominn aftur til starfa.
Þegar hann kynnti iPad-spjaldtölvuna til leiks í janúar 2010 virtist hann orkumikill. Það ásamt fleiru sló á orðróm um þrálát veikindi hans. En þegar ég sá Jobs stíga út úr bifreið sinni þennan vormorgun sá ég strax að eitthvað var að. Ég hafði séð á iPad-kynningunni nokkrum mánuðum fyrr og þar virtist hann vera stútfullur af orku og krafti. Ég velti fyrir mér hvort myndavélarnar hefðu blekkt svona vel því að þegar hann kom á skrifstofu Siri þennan dag duldist engum að þarna fór veikur maður. Það birtist okkur ekki í framferði hans því að hann talaði af sömu sannfæringu og endranær og hann náði eyrum allra í herberginu, eins og ég sá hann gera árið 2007. En það var eitthvað í líkamsbeitingu hans og hreyfingum sem mér fannst bera vott um djúpstæða þreytu. Á meðan Apple var á hraðri uppleið fannst mér ljóst að Steve Jobs var veikari en opinberar upplýsingar gáfu til kynna. Hvað það þýddi vissi enginn en við gátum ekki látið það trufla okkur. Eftir að Jobs hélt sína tölu yfirgaf hann svæðið ásamt samstarfsmanni sínum. Hann gaf ekki færi á sér til að spjalla. Við hin fórum að pakka saman. Við vorum núna að flytja á nýjan vinnustað. Við áttum mikið verk fyrir höndum.