Opnunarhátíð Ólympíuleikanna fór fram í kvöld í París. Í fyrsta sinn í sögu Ólympíuleikanna fór opnunarhátíðin ekki fram á leikvangi. Verið er að ryðja nýja braut í París með því að færa íþróttirnar inn í borgina og hið sama á við um opnunarhátíðina, sem fór fram í hjarta borgarinnar meðfram aðalæð hennar, Signu.
Þetta er í þriðja sinn sem París hýsir leikana, en þeir voru haldnir þar árin 1900 og 1924. Nú, 100 árum eftir síðustu Parísarleikana, er búist við að leikarnir verði sögulegir og á margan hátt einstakir.