Fyrir rúmlega tveimur árum gekk franska knattspyrnufélagið Paris Saint-Germain (PSG) frá samningi við Argentínumanninn Lionel Messi, sem af mörgum er talinn besti knattspyrnumaður allra tíma. Þar með var framlína PSG fullkomnuð en fyrir voru á mála hjá félaginu Brasilíumaðurinn Neymar, sem félagið gerði að dýrasta knattspyrnumanni allra tíma árið 2017, og ungstirnið Kylian Mbappé, næst dýrasti knattspyrnumaður allra tíma.
Með framlínu sem samanstóð af besta knattspyrnumanni allra tíma, besta unga knattspyrnumanni heims og dýrasta knattspyrnumanni heims var að sjálfsögðu stefnt á sigur í hverri einustu keppni. Aðalmarkmiðið var þó að landa sigri í keppni þeirra bestu, Meistaradeild Evrópu.
Tólf ár eru síðan Qatar Sports Investments festi kaup á PSG. Um leið varð félagið, sem hafði átt í fjárhagsvandræðum um nokkurt skeið og árangurinn eftir því, eitt ríkasta knattspyrnufélag heims. Katararnir voru stórhuga og lýstu því yfir að ásamt því að gera PSG að stærsta liði Frakklands væri stefnt á að setja saman lið sem væri fært um að keppa um sigur í Meistaradeild Evrópu.
Eigendurnir hafa svo sannarlega lagt sitt af mörkum, að minnsta kosti fjárhagslega, til að ná því markmiði. Fjöldi stórstjarna gengið til við félagið yfir valdatíð þeirra og nægir í því samhengi að nefna nöfn á borð við Zlatan Ibrahimovic, Neymar, Kylian Mbappé og Lionel Messi. Á tólf árum Qatar Sports Investments sem eigendur franska liðsins nemur nettó eyðsla félagsins á leikmannamarkaðnum, sem sagt kaupverð nýrra leikmanna dregið frá söluandvirði seldra leikmanna, rúmlega 1,1 milljarða evra.
143 milljóna evra launapakki
Stórstjörnur eru síður en svo ódýrar í rekstri. Eins og fyrr segir gekk Lionel Messi til liðs við PSG sumarið 2021. Fjárhagsvandræði spænska stórliðsins Barcelona urðu til þess að félagið gat ekki gengið frá nýjum samningi við sinn dáðasta son, sem gerði PSG kleift að sækja Messi á frjálsri sölu. Þrátt fyrir að franska liðið hafi ekki þurft að greiða kaupverð fyrir argentínska snillinginn var fjárhagslegt umfang viðskiptanna verulegt. Messi skrifaði undir tveggja ára samning við PSG og er talið að félagið hafi greitt honum 35 milljónir evra í laun á ári. Messi þénaði því 70 milljónir evra á tveimur árum sínum í frönsku höfuðborginni. Inni í þessari tölu eru ekki hinir ýmsu árangurstengdu greiðslur sem oft má finna í samningum knattspyrnumanna.
Síðasta sumar gekk PSG svo frá nýjum samningi við Kylian Mbappé, sem þá átti aðeins ár eftir af þágildandi samningi sínum. Samningurinn, sem var til tveggja ára auk ákvæðis sem Mbappé sjálfur gat nýtt til að framlengja hann um ár, er af slíkri stærðargráðu að annað eins hafði vart sést áður innan knattspyrnuheimsins. Samningurinn tryggði Mbappé 72 milljónir evra í árslaun, auk árangurstengdra greiðslna.
Eins og gefur að skilja er ekki heldur ódýrt að vera með dýrasta leikmann allra tíma á launaskrá. Neymar skrifaði síðast undir framlengingu á samningi við PSG sumarið 2021 og skilaði sá samningur honum 36 milljónum evra á ári, auk árangurstengdra greiðslna.
Á síðasta keppnistímabili greiddi PSG því sóknartríóinu sínu samtals 143 milljónir evra í laun, auk árangurstengdra greiðslna.
Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast fréttina í heild hér.