Einar Örn Einarsson, annar stofnenda Serrano hér á landi, opnaði fyrir skömmu mathöllina Sthlm City Food Hall í Stokkhólmi. Mathöllin, sem leggur áherslu á götubita, er staðsett að Klarabergsgatan 29-31 í miðborg sænsku höfuðborgarinnar.

Hún er samtals 400 fermetrar að stærð og með sæti fyrir um 200 gesti. Þar að auki geta gestir mathallarinnar setið á útisvæði á sumrin. Átta veitingastaðir er með aðsetur í mathöllinni sem bjóða meðal annars upp á samlokur, pizzur í New York stíl, takkó, hamborgara, sushi, ramen núðlur og gufusoðið brauð.

Í tilkynningu sem send var á sænska fjölmiðla vegna opnunar mathallarinnar segir Einar Örn að með opnun hennar sé verið að fylla upp í gat á veitingamarkaði á einum af helstu miðpunktum borgarinnar. Mjög hafi verið vandað til verka við val á veitingastöðum, sem allir eigi það sameiginlegt að bjóða upp mat í háum gæðaflokki, og allir ættu því að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Markmiðið sé að búa til matarsamkomustað sem höfði bæði til íbúa Stokkhólms sem og ferðamanna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út í fyrramálið.