Stóra-Laxá í Hreppum er af mörgum talin ein allra fallegasta laxveiðiá á Íslandi. Í fyrra tóku nýir leigutakar við ánni. Leigutakinn er félag, sem kennt er við einn frægasta veiðistað árinnar, Bergsnös. Finnur B. Harðarson, fyrrverandi útgerðarmaður í Kanada og á Grænlandi, á stærsta hlutinn í félaginu en hann er jafnframt landeigandi við Stóru-Laxá.
Um leið og hann, ásamt hópi fjárfesta, samdi um leigu árinnar, var ljóst að miklar breytingar væru í farvatninu við Stóru-Laxá. Þegar samningurinn var undirritaður var nýtt veiðifyrirkomulag kynnt, sem og áætlanir um stórbætta aðstöðu fyrir veiðimenn með byggingu tveggja nýrra veiðihúsa við ána. Grundvöllurinn fyrir uppbyggingunni er að leigusamningurinn er til tíu ára, sem er óvenju langur leigusamningur um laxveiðiá hér á landi.
Fólk sem dýrkar laxveiði
Ólöf Skaftadóttir, fyrrverandi ritstjóri Fréttablaðsins og samskiptastjóri Samtaka atvinnulífsins, er framkvæmdastjóri Bergsnasar. Hún segir að hluthafar í Bergsnös séu tæplega tíu.
„Þetta fólk dýrkar laxveiði og hefur skoðanir á því hvernig hlutirnir eiga að vera,“ segir Ólöf. „Það kann að hljóma undarlega fyrir einhverja þarna úti en þetta fólk er ekki í þessu til að græða pening heldur til að byggja þetta svæði upp og gera Stóru-Laxá að bestu laxveiðiá á Íslandi. Hún hefur alla burði til þess ekki síst nú þegar búið er að kaupa upp net í Ölfusá og Hvítá og fara í allar þær framkvæmdir sem við höfum gert.“
Endurbætur á efra svæðinu
Ólöf segir að strax hafi verið hafist handa við að byggja veiðihús fyrir neðra svæðið og til að byrja með hafi veiðihúsið á efra svæðinu, húsið sem fylgdi svæði 4 samkvæmt gömlu skiptingunni, gert upp.
„Við gerðum húsið svo að segja alveg upp, löguðum það að innan og utan. Við máluðum, breyttum skipulagi inni í húsinu og innréttuðum, bættum við einu baðherbergi í viðbót svo nú eru þau tvö, settum heitan pott og svo má lengi telja. Þetta er allt annað hús en áður. Hugmyndin er samt enn sú að byggja nýtt veiðihús fyrir efra svæðið þegar fram í sækir.
Nýtt hús risið á neðra svæðinu
Nýtt og glæsilegt veiðihús er risið á neðra svæðinu í Stóru-Laxá fyrir neðan gamla veiðihúsið sem fylgdi svæði 1 og 2 hér áður. Nýja húsið verður tekið í notkun í sumar en verið er að leggja hönd á lokafrágang.
„Í fyrra leigðum við húsnæði fyrir veiðimenn en í sumar munu þeir sem sagt koma í nýtt og stórglæsilegt veiðihús. Í því eru sjö svefnherbergi og er hvert þeirra með sér baðherbergi. Stofan er mjög vegleg og allt upp á tíu enda glænýtt hús."
Nánar er fjallað um málið í blaðinu Veiði, sem fylgdi Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið greinina í heild hér.