„Ég er píanóleikari, tónskáld, upptökustjóri og margt fleira. Ég er alinn upp í Árbænum, er ættfróður safnari og ákafur áhugamaður alls þess sem ég er með á heilanum hverju sinni,“ segir Magnús Jóhann Ragnarsson aðspurður út í hver hann sé. Hann deilir með lesendum sínum uppáhaldslögum í sumar hér að neðan.

Hvernig tónlistarsmekk ert þú með og hefur hann breyst mikið í gegnum tíðina?

Ætli ég geti ekki fullyrt að hann sé fjölbreyttur. Mamma er píanóleikari og í gegnum hana kynntist ég klassískri tónlist og pabbi er af Rolling Stones kynslóðinni. Það gaf af sér fjölbreytt tónlistaruppeldi og svo gekk maður vitaskuld í gegnum hin ýmsu skeið á uppvaxtarárunum.

Á unglingsárunum mótaðist ég mjög af allskonar rokki eins og The Doors, Pink Floyd, Deep Purple o.s.frv. Svo þegar ég fór að læra djass opnaðist nýr heimur fyrir mér og ég varð einnig heltekinn af sálar- og hip hop tónlist af ýmsum toga.

Ég hlusta á allt í dag, þótt vissulega eigi ég mér uppáhöld, en það kemur í tímabilum hvað er ráðandi hverju sinni. Stundum er mesta áherslan á klassíska tónlist, stundum raftónlist og stundum ekkert nema hip hop o.s.fr.v.

Hver er uppáhalds tónlistarmaðurinn þinn og/eða?

Ansi erfið spurning og svarið eflaust breytilegt en ætli ég verði ekki að útnefna tónskáldið Ryuichi Sakamoto sem minn uppáhalds tónlistarmann.

Hann átti glæstan og fjölbreyttan feril. Mótaði tónlistarsöguna mína m.a. með rafsveit sinni Yellow Magic Orchestra, hlaut Óskarsverðlaun fyrir kvikmyndatónlist sína, var frumkvöðull í sveim- og raftónlist í kringum aldamótin og svo mætti lengi áfram telja.

Hljómplatan hans, async, frá árinu 2017 hafði djúp og mikil áhrif á mig. Hann var knúinn áfram af eilífri forvitni og virðingu fyrir tónlistinni.

Magnús Jóhann var alinn upp við að hlusta á The Rolling Stones.
Magnús Jóhann var alinn upp við að hlusta á The Rolling Stones.

Hverjir eru uppáhalds tónleikarnir sem þú hefur farið á?

Ég er svo heppinn að hafa séð Rolling Stones tvisvar áður en að Charlie Watts féll frá, það var eftirminnilegt. Sömuleiðis Skepta á Airwaves í Listasafninu 2015.

Síðasta haust sá ég Fred Hersch tríóið á Village Vanguard í New York, sem er heimsfrægur tónleikastaður. Það var draumi líkast.

Hvað er þitt go-to lag í karaoke?

Don‘t Go Breaking My Heart með Elton John og Kiki Dee.

Hvaða þrjú lög eru í uppáhaldi hjá þér þessa stundina og eru tilvalin á playlistann fyrir sumarið?

Taq ou- Dub með Johnny Greenwood og Dudu Tassa ásamt Nour Freteikh hefur verið á repeat hjá mér undanfarið. Raunar öll platan, Jarak Quaribak, sem er nýkomin út er algjör veisla.

Undanfarið hef ég líka verið með keisarakonsertinn eftir Beethoven á heilanum, hann er grand og sumarlegur. Adagio kaflinn náttúrulega óviðjafnanlegur en konsertinn er allur algjör banger.

Öll nýja Queens of the Stone Age platan, In Times New Roman..., er alveg geggjuð. Hún er sumar. Svo kannski líka nýja Aphex Twin smáskífan. Illað dót.