Þorvaldur Davíð ásamt hljómsveitinni Skafrenningunum gefa út plötuna Jólin! Það hlakka allir til nema ég. Platan er með djassívafi og talsvert lágstemmdari og rólegri en flestar aðrar jólaplötur. Lög plötunnar eiga það öll sameiginlegt að hafa verið áður flutt af Chet Baker.
Þegar Þorvaldur Davíð er spurður út í hans upplifun á jólunum segir hann að upplifun fólks á jólunum fari eftir afstöðu fólks. „Þú getur fundið fegurðina í jólunum. Eins og segir í mörgum jólalögum, eru þau hátíð ljóss og friðar. En mér finnst fólk stundum gleyma sér í asanum. Jólin snúast um að vera með fjölskyldu og vinum og að vera í kyrrð og ró. Þetta snýst stundum upp í andhverfu sína. Tilgangur jólanna er að leiða fólk saman,“ segir Þorvaldur.
Hópfjármögnun á Karolina Fund
Hljómsveitin er með hópfjármögnun á plötunni á vefsíðunni Karolina Fund . „Fjármögnunin hefur gengið rosalega vel,“ segir Þorvaldur Davíð. „Það er einmitt á þeirri síðu þar sem er hægt að nálgast forsölu á plötuna. Þar er einnig hægt að kaupa miða á útgáfutónleika plötunnar sem verða 27. nóvember næstkomandi í Iðnó. Svo verða tónleikar á Dalvík í kjölfarið, og svo tónleikar á Græna hattinum í desember. Við viljum koma landanum í góðan fíling.
Svo hafa fyrirtæki stundum bókað okkur til að spila fyrir þau. Þetta er ekta svona „lounge“ tónlist. Hún passar vel yfir borðhaldi, þar sem fólk er að fá í sig smá stemmingu fyrir jólin,“ bætir Þorvaldur við.
Spurður hvort verkefnið verði svipað eins og Baggalútur fyrir blúsara, segir hann að Skafrenningarnir verða eilítið lágstemmdari en þeir. Tónlist Skafrenninganna er líka „instrumental“ auk sönglaganna, svo þetta er svolítið í bland. Að lokum tekur Þorvaldur Davíð fram að hann vonist til þess að þessi nýja plata leggist vel í landann og tekur fram að þetta sé nýtt útspil í jólaflóruna.
Dóttirin vex með jólatrénu
Jólahaldið hjá Þorvaldi Davíð er þannig að hann fær alltaf rjúpur frá Dodda frænda sínum að austan. „Það besta sem ég fæ er samt hangikjöt með hvítri sósu og kartöflum. Við fáum heilagt lamb frá Simma og Unni í Vestmannaeyjum,“ segir Þorvaldur. Hann bætir einnig við að sterkasta jólahefðin hjá fjölskyldunni sé að það er alltaf keypt inn jólatré í samræmi við stærð dótturinnar. „Það er ákveðin hefð. Svo það mun stækka með árunum. Mamma og pabbi gerðu þetta með mig þegar ég var yngri. Og svo stækkaði tréð alltaf í samræmi við mig. Það væri þó verra ef dóttirin yrði þriggja metra há, þá þyrfti að fara að saga úr þakinu.“
Nánar er fjallað um málið í fylgiblaði Viðskiptablaðsins, Jólahandbókinni. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .