Manchester City hagnaðist um 41,7 milljónir punda á rekstrarárinu 2021-22, eða sem nemur 7 milljörðum króna. Hagnaðurinn jókst um 6% á milli ára, að því er kemur fram í grein hjá The Athletic, en um er að ræða methagnað hjá félaginu.
Þá námu tekjur félagsins 613 milljónum punda á tímabilinu, um 103 milljarða króna. Tekjurnar jukust um 43,2 milljónir punda á milli ára og hafa aldrei verið meiri í sögu félagsins.
Tekjur félagsins af leikdegi jukust talsvert á milli ára, en á stórum hluta tímabilsins 2020-21 var áhorfendum meinað að borga sig inn á leiki vegna samkomutakmarkana. Þá hagnaðist félagið um 67,7 milljónir punda á leikmannasölum, sem er met hjá félaginu. Félagið gerir ráð fyrir að hagnaður af leikmannasölum muni verða enn meiri fyrir tímabilið 2022-2023, en félagið seldi leikmenn fyrir samtals 140 milljónir punda í sumarglugganum 2022.
Ferran Soriano, forstjóri City samstæðunnar, segir methagnað og metafkomu félagsins skýrast einna helst af þeim fallega fótbolta sem liðið spilar.