„Við erum ekki bara að styrkja tengsl milli kvenna í orkumálum – við erum að breyta ásýnd geirans.“
– segir Selma Svavarsdóttir, formaður Kvenna í orkumálum og forstöðumaður hjá Landsvirkjun

Hvað er það í orkugeiranum sem kallar á vettvang eins og KÍO?

„Það eru miklar og hraðar breytingar í orkugeiranum. Hann hefur verið sögulega karllægur og frekar einsleitur en er nú mikið að þróast og breytast. Við sjáum aukna eftirspurn eftir fleiri sjónarmiðum, fjölbreyttari forystu og ekki síst fyrirmyndum sem endurspegla breiðari hóp fólks.

KÍO – Konur í orkumálum eru að styðja við þessa þróun. Við höfum fundið fyrir gríðarlegum áhuga á félaginu, bæði innan og utan geirans. Félagskonur eru nú yfir 600 og fullt er á alla viðburði. Það er einfaldlega mikil eftirspurn eftir tengingu, samtali og nýrri ásýnd. KÍO hefur orðið vettvangur þar sem konur tengjast – og stuðla um leið að því að orkugeirinn verði aðgengilegri, spennandi fyrir fleiri – og þannig sterkari og betri.“

Konur fjölmenntu á fyrsta KÍÓ daginn.
© Elísabet Blöndal (Elísabet Blöndal)

Fyrsti KÍO-dagurinn

KÍO hefur staðið fyrir fjölbreyttum viðburðum en í tilefni af Kvennaárinu ákvað stjórn félagsins að gera eitthvað stærra og meira og standa fyrir svokölluðum KÍO-degi. Óhætt að segja að hann hafi heppnast vel.

„Við bjuggumst við góðum viðbrögðum, en það sem gerðist fór langt fram úr okkar björtustu vonum. Það var troðfullt á ráðstefnuna – rúmlega 200 manns – og það var kominn biðlisti áður en dagskráin var kynnt. Það segir í raun allt sem segja þarf um það sem við erum að byggja upp. Ráðstefnugestir komu með opinn hug, til að hlusta, spyrja, tengjast – og þetta skapaði alveg ótrúlega orku í salnum. Það var líka greinilegt að aðilar utan KÍO vildu vera með – það var sama við hvern við töluðum: ráðherra, forstjóra, skemmtikrafta – öll sögðu strax já við því að taka þátt.“

Jóhann Páll Jóhannson, Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, flutti opnunarávarp ráðstefnunnar .

Hvað tekur við næst?

„Áhuginn sem við mætum er mjög hvetjandi. Við höldum áfram öflugu starfi, nú erum við að undirbúa viðburð um orkutengda nýsköpun, svo höfum við í hyggju að lyfta upp og gera sýnilega á samfélagsmiðlum ólíka einstaklinga í alls kyns spennandi störfum í orkugeiranum – með því viljum við búa til fjölbreyttar fyrirmyndir. Svo ætlum við auðvitað að styrkja tengslin enn frekar, byggja á þeirri orku sem skapaðist á KÍO deginum og halda áfram að vera vettvangur fyrir áhrif, sýnileika og forystu.“

Stjórn KÍO.
Guðný Helga Herbertsdóttir og Ragna Árnadóttir.