Citroën ë-C4 X er stallbaks útgáfa af Citroën C4 og verður bíllinn eingöngu í boði sem rafbíll hér á landi en í Evrópu býður Citroën C4 X bæði með bensín og dísel mótor.
Erfitt er að skilgreina í hvaða flokk Citroën ë-C4 X fellur. Hann ber með sér mörg einkenni SUV bíla, t.a.m. með hærri veghæð og þá er hann á 18” dekkjum og svart lituðum brettakönntum sem ýta einnig undir þessa skilgreiningu.
Aftur á móti er stærð yfirbyggingarinnar líkari venjulegum fólksbíl.
Óhætt er að segja að þessi samruni gangi vel upp í ë-C4 X. Veghæðin skilar sér í þægilegri akstri þegar farið er yfir hraðahindranir innanbæjar og þá státar Citroën ë-C4 X einnig af nýrri fjöðrun sem er að hluta til vökvafjöðrun sem gerir aksturinn mun þægilegri, eins og Citroën nefnir að svífa um á töfrateppi.
Þetta er eitthvað sem Citroën hefur áður verið þekktur fyrir og ánægjulegt að sjá þetta aftur í Citroën bíl.
Aukið farangursrými er í X útgáfunni og er það uppgefið 510 lítrar. Aðgengið er að sjálfsögðu annað en í stallbaksútgáfunni en pláss er fyrir nokkrar töskur og annan farangur en erfiðara gæti reynst að setja stærri hluti í bílinn.
Að innan er bíllinn ágætlega rúmgóður. Framsætin eru aðeins breiðari en hefðbundið er og þá eru aftursætin líkt og framsætin mjúk og góð og greinilegt að allt kapp er lagt við að gera aksturinn sem mýkstan og þægilegan.
Akstursumhverfi bílstjórans er með besta móti, lítill 5” akstursskjár auk framrúðuskjás virka vel og þá er 10” snjall snertiskjár í mælaborði.
Stillingar fyrir miðstöð eru fyrir neðan snjall snertiskjáinn sem stjórna hita og krafti en fyrir aðrar stillingar miðstöðvar þarf að fara inní upplýsingaskjáinn, kannski óþarfa flókið en venst kannski.
Fyrir framsætisfarþega er útdraganlegt spjaldtölvuborð.
Nánar er fjallað um bílinn í blaðinu Bílar sem kom út 26.maí. Áskrifendur geta lesið greinina í heild hér.