Seinustu sýningar á kvikmyndinni Starring Jerry as Himself eru nú í vikunni í Bíó Paradís og fer hver að vera seinastur til að sjá þessa ótrúlegu heimildarmynd.

Myndin fjallar um Jerry Liu, sem leikur sjálfan sig eins og titillinn gefur til kynna, mann sem flutti til Bandaríkjanna frá Taívan fyrir nokkrum áratugum síðan og hefur þar alið upp fjölskyldu og gott líf.

Ævisaga Jerry er frekar algeng meðal kínverskra fjölskyldumanna en hann er sagður hafa unnið eins og skepna alla sína ævi og sparað nánast hvern einasta aur til að geta gefið börnunum sínum þegar þau verða eldri.

Við byrjum á því að fylgjast með gömlum raunverulegum heimamyndböndum af Jerry og fjölskyldu hans í Bandaríkjunum. Hann og kona hans halda til dæmis upp á jólin og börnin þeirra vaxa svo hægt og rólega upp úr grasi.

Tímalínan færist svo yfir til ársins 2021 og er Jerry nú kominn á eftirlaun í Orlando þar sem hann býr. Hann og kona hans eru fráskilin en fjölskyldan er engu að síður mjög náin og viðhalda þau góðum tengslum.

Jerry býður allri fjölskyldunni sinni út að borða á kínverskan veitingastað þar sem hann byrjar að segja þeim undarlega sögu sem varð til þess að líf hans breyttist fyrir fullt og allt. Hann segir að dag einn hafi hann fengið símtal frá kínversku lögreglunni í Shanghai sem segir að það sé verið að rannsaka hann fyrir fjárhagsglæpi. Jerry er skiljanlega mjög brugðið en hann fær tækifæri til að sanna sakleysi sitt og verður nokkurs konar útsendari kínversku lögreglunnar.

Við tekur svo atburðarás þar sem myndin verður sífellt meira spennandi eftir því sem líður á hverri mínútu.

Starring Jerry as Himself er frábærlega unnin mynd sem nær bæði að sýna flókið mynstur fjölskyldulífs en á sama tíma er hlaðin tilfinningalegum og erfiðum augnablikum sem fær áhorfanda til að mynda raunveruleg tengsl við aðalpersónuna.