Gísli Þorsteinsson, viðskiptastjóri hjá OK, hefur áhuga á bílum eins og svo margir. Hann rifjar upp eftirminnilegasta bílinn og bílferðina og ýmislegt annað tengt bílum. Hann segist frekar vilja taka þátt í torfæru en kappakstri og viðkennir að hann sé veikur fyrir amerískum jeppum. Gísli er giftur Völu D. Jóhannsdóttir og saman eiga þau fjögur börn og tvo ketti.
Hver er eftirminnilegasti sem þú hefur ekið?
„Get nú ekki sagt að það sé minn uppáhaldsbíll en mér fannst alltaf tékkneskur Skoda Station bíll sem ég notaði í sumarvinnu á háskólaárunum í kringum 1990 alltaf eftirminnilegur. Þetta var nú ekki besti bíllinn en öðru vísi. Ég man að það var pínu erfitt að skipta um gír á bílnum og gírstöngin var hálf léleg og máttlaus þó að þetta væri nýr bill. Hann dugði samt alveg þokkalega en auðvitað var þetta bölvuð dós.“
Hver er eftirminnilegasta bílferðin?
„Þær eru nú margar skemmtilegar bílferðir sem ég hef farið í. Mér er sérstaklega eftirminnileg ferð sem ég fór í kringum tvítugt í Kaliforníu og Nevada, heimsótti fjölda borga og bæja. Svona eftir á að hyggja þá er nokkuð merkilegt hvað manni tókst að rata því ekki var maður með GPS eða net á þessum tíma. Þetta gekk samt einhvern veginn og ég skilaði mér klakklaust ásamt föruneyti á þá staði sem við ætluðum að fara á. Líklega stendur upp úr að hafa heimsótt Las Vegas. Það var magnað að keyra inn í borgina að kvöldi til en hún var nú ekki eins tilkomumikil á daginn þegar ljósasýningarinnar naut ekki við.“
„Ég er nú frekar minimalískur í eðli mínu en er pínu veikur fyrir amerískum jeppum“
Hver er besti bílstjóri sem þú þekkir (fyrir utan sjálfa þig)?
„Verð ég ekki að segja að betri helmingurinn, kona mín, Vala D. Jóhannsdóttir sé sá besti.“
En versti bílstjórinn?
„Látum það liggja á milli hluta. Vil ekki valda óþarfa ólgu í fjölskyldunni.“
Hvað hlustarðu helst á í bílnum?
„Ég hlusta helst á hlaðvörp, mikið af sögulegu efni, um þjóðfélagsmál eða það sem snýr að fótbolta. Það er nóg til af góðu hlaðvarpsþáttum á íslensku.“
Hvort myndirðu vilja keppa í kappakstri eða torfæru?
„Ég hugsa að torfæran mundi henta mér betur, er ekki mikið fyrir kappakstur.“
Hver er draumabíllinn?
„Ég er nú frekar minimalískur í eðli mínu en er pínu veikur fyrir amerískum jeppum. Er þá sérstaklega hrifinn af Lincoln Navigator. Líklega væri ég mest til í einn slíkan.“