Manchester United vakti athygli í vikunni með óvæntri tilkynningu um áætlanir um nýjan hundrað þúsund manna leikvang við hlið Old Trafford. Búist er við að nýi leikvangurinn muni kosta um tvo milljarða punda, sem nemur tæplega 350 milljörðum íslenskra króna.

Að því er kemur fram í grein Bloomberg velta bankamenn því fyrir sér hvernig félagið ætlar að fjármagna uppbygginguna.

Samkvæmt heimildum Bloomberg gætu lánveitendur verið tilbúnir að lána á bilinu 1 til 1,5 milljarða punda. Þá þyrfti enn að finna á bilinu 500-1.000 milljónir punda í eigið fé til að brúa bilið.

Hins vegar hafa önnur félög náð að fjármagna framkvæmdir nýrra leikvanga alfarið með skuldsetningu. Má þar nefna enduruppbyggingu Barcelona á Camp Nou. Því telja greinendur að stórlið á borð við Manchester United ætti að geta safnað nægjanlegu fjármagni til að byggja upp leikvanginn.

Þá sé möguleiki á að ný ríkisstjórn Bretlands sjái tækifæri í að fjárfesta í verkefninu til að efla hagkerfið – en 0,1% samdráttur varð í breska hagkerfinu í janúarmánuði síðastliðnum.

Omar Berrada, framkvæmdastjóri Man Utd., hefur lýst því yfir að félagið muni skoða alla fjármögnunarmöguleika. Þrátt fyrir að hafa átt í erfiðleikum innan vallar á síðustu árum og skulda meira en milljarð punda telja sérfræðingar að félagið muni ekki eiga í erfiðleikum með að afla sér fjármagns.

Þannig séu fjárfestingabankarnir Goldman Sachs og JPMorgan Chase & Co líklegustu aðilarnir til að sjá um fjármögnun verkefnisins, en bankarnir tveir voru umsjónaraðilar kaupa Jim Ratcliffe á hlut í félaginu.

Bank of America hefur einnig verið nefndur á nafn meðal greinenda, en bankinn hefur séð um fjármögnun leikvanga annarra stórliða á borð við Real Madrid og Tottenham Hotspur.