Á hverju ári frá árinu 2019 hefur vefritið World‘s Best Vineyards tekið saman lista yfir hundrað bestu vínekrur fyrir ferðamenn til að heimsækja. Listinn byggir því ekki eingöngu á gæðum vínanna sem framleidd eru á vínekrunni, heldur einnig þáttum á borð við fagurfræði, landslagi og arkitektúr. Hið rótgróna breska útgáfufyrirtæki William Reed, sem sérhæfir sig í útgáfu tíma- og vefrita sem fjalla um mat og drykk, stendur fyrir útgáfu listans. Listinn byggir á mati nærri fimm hundruð sérfræðinga sem sérhæfa sig í víntengdri ferðamennsku.

Nýverið var hulunni svipt af lista yfir hundrað bestu vínekrur ársins 2022. Þar dregur til tíðinda þar sem að ný vínekra situr í efsta sæti listans. Á árunum 2019 til 2021 skipaði vínekra Zuccardi fjölskyldunnar Ucodalnum í Mendoza héraðinu í Argentínu, sem er hvað þekktast fyrir víngerð, efsta sætið. Þess ber þó að geta að umrædd vínekra hafði ekki möguleika á að hreppa efsta sætið fjórða árið í röð. Ástæða þess er sú að þegar vínekra hefur hreppt efsta sætið í þrígang er hún tekin inn í frægðarhöll (Hall of Fame) World‘s Best Vineyards og er þar með ekki lengur gjaldgeng á listann yfir bestu hundrað vínekrur heims. Hér að neðan verða vínekrurnar sem hrepptu efstu tíu sæti listans árið 2022 kynntar til leiks, í réttri röð.

Marchesi Antinori

Toskanahérað á Ítalíu er eitt af fremstu víngerðarsvæðum heims og þar hefur Antinori fjölskyldan stundað víngerð frá árinu 1385. Það var Giovanni di Piero Antinori sem hóf víngerðararfleið fjölskyldunnar og kynslóðin sem nú heldur um stjórntauma Marchesi Antinori er sú 26. í röðinni. Höfuðstöðvar félagsins voru opnaðar árið 2012 en uppbygging þeirra tók sjö ár. Eins og sjá má á myndinni af höfuðstöðvunum gefur að skilja að framkvæmdir hafi tekið svo langan tíma, enda falla höfuðstöðvarnar fullkomlega inn í landslag vínekranna sem liggja umhverfis þær. Marchesi Antinori framleiðir fjölda gæða vína og er hvað þekktast fyrir ofur-Toskana rauðvínin Tignanello og Solaia.

Hið víðfræga Tignanello er eitt af flaggskipum Marchesi Antinori víngerðarinnar.
Hið víðfræga Tignanello er eitt af flaggskipum Marchesi Antinori víngerðarinnar.
© Facebook (Facebook.com)

Bodegas Marqués de Riscal

Frá árinu 1858 hefur víngerðin Bodegas Marqués de Riscal framleitt vín í einu frægasta vínhéraði heims, Rioja héraðinu á Spáni. Þetta er annað árið í röð sem víngerðin hafnar í öðru sæti listans og hún hefur sömuleiðis verið meðal tíu efstu frá því að listin kom fyrst út árið 2019. Árið 2006 opnaði víngerðin hina glæsilegu Marqués de Riscal „vínborg“ þar sem ferðamönnum gefst m.a. kostur á að gista á fimm stjörnu hóteli og seðja hungrið á Michelin-veitingastað. Að sjálfsögðu geta þeir einnig fræðst um víngerðina og barið vínekrurnar augum.

Bodegas Marques de Riscal.
Bodegas Marques de Riscal.
© Facebook (Facebook.com)

Montes

Víngerðin Montes, sem staðsett er í Colchaguadalnum í Síle, var sett á fót af fjórum vinum árið 1980 sem höfðu metnað til framleiða gæðavín sem myndi vekja athygli heimsins á gæðum síleskrar víngerðar. Óhætt er að segja að þeim félögum hafi tekist áætlunarverk sitt, því vín Montes eru nú fáanleg í yfir 100 löndum vítt og breitt um heiminn. Árið 2004 opnaði Montes að mikilli uppbyggingu lokinni dyr sínar fyrir vínferðamönnum og hefur allar götur síðan verið vinsæll áfangastaður slíkra ferðamanna. Meðal flaggskipa Montes er rauðvínið Alpha M, sem óhætt er að mæla með.

Montes.
Montes.
© Facebook (Facebook.com)

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.