21 einstaklingur lét flúra á sig hluta af sama listaverkinu á dögunum, en gjörningurinn var hluti af markaðsherferð fyrir Orku – Tropical Lime og var afraksturinn notaður í „stop-motion“ auglýsingu fyrir drykkinn.

Orka – Tropical Lime er fyrsta nýja bragðtegund Orku frá því drykkurinn kom fyrst á markað árið 1998, fyrstur íslenskra orkudrykkja.

Það var listakonan Natka Klimowicz, einnig þekkt sem Kosmonnatka, sem teiknaði verkið og sá um að flúra einstaklingana.

Allt fór þetta fram á pop-up húðflúrsstofu sem sett var upp í húsakynnum auglýsingastofunnar Cirkus. Í tilkynningu segir að það hafi tekið fimm heila vinnudaga að koma myndskreytingunni á hina ýmsu líkamshluta sjálfboðaliðanna.

„Ég þekki Nötku og hef mjög gaman af hennar list og stíl, þannig að þegar tækifærið gafst þá þurfti ég ekki að hugsa mig tvisvar um,“ segir Ólafur Sverrir Traustason, sem fékk sér flúrið á vinstri upphandlegg, en hann var aðeins með eitt flúr fyrir.

Natka Klimowicz, einnig þekkt sem Kosmonnatka, teiknaði bæði verkið og sá um að flúra einstaklingana.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Húðflúr Nötku var hins vegar það tíunda í röðinni hjá öðrum sjálfboðaliða, Ásu Kollu, sem fékk flúrið einnig á upphandlegginn, nema þann hægri. „Ég ákvað að skella mér á þetta tækifæri, að vera með flúr eftir Nötku, enda hef ég lengi ætlað til hennar.“

Kosmonatka er vel þekkt í grasrótarsenu myndlistar og hönnunar hér á landi. Hún sameinar hugsjónir sínar, aktívisma og listsköpun á eftirtektarverðan hátt, með sterkum litum sem grípa augað.