Þessa helgi opna tveir afburða listamenn, Hallgrímur Helgason og Steingrímur Eyfjörð, sýningar þar sem þeir draga upp einstaka sýn á íslenska listasögu og eigin feril.
Hallgrímur Helgason: Usli
Sýningin Usli fjallar um höfundarverk myndlistarmannsins Hallgríms Helgasonar, sem er einnig þekktur fyrir ritstörf og samfélagsrýni. Í myndlist sinni nýtir hann málverk og teikningu til að segja persónulegar sögur sem endurspegla tíðaranda eða alþjóðlega atburði. Hallgrímur hefur þróað fígúratífan stíl sem flakkar milli raunsæis og fantasíu. Hann er áttundi listamaðurinn í sýningaröð Listasafns Reykjavíkur, þar sem lykilverk hans eru sýnd í Vestursal Kjarvalsstaða og ferill hans skoðaður í samhengi við listasöguna.
Opnun sýningarinn er í Listasafni Reykjavíkur – Kjarvalsstöðum, laugardaginn 19. október.
Steingrímur Eyfjörð - 1978 í Listval Gallerí.
Steingrímur Eyfjörð er meðal fremstu listamanna sem komu fram á áttunda áratugnum og hefur unnið með fjölbreytta miðla, allt frá ljósmyndun til gjörningalistar.
Fyrir einkasýninguna 1978 vinnur Steingrímur Eyfjörð með hugmyndir sem tengjast tímabilinu 1957 til 1981 í íslenskri listasögu. Verkin eru hugleiðingar hans um avant-garde tímabilið og persónuleg sýn hans á listasöguna, í mótvægi við opinbera útgáfu hennar. Hluti sýningarinnar er útgáfurit með ítarlegri umfjöllun um verkin og samtal Steingríms við listamenn um þróun myndlistar á þessu tímabili.
Sýningin opnar í Listval Gallerí laugardaginn 19. október.