Greinendur hjá svissneska fjárfestingarbankanum UBS Group telur að hlutabréfaverð enska knattspyrnufélagsins Manchester United eigi allt að 30% hækkun inni. Hann verðmetur félagið á 23 dollara á hlut sem er um 30% hærra en dagslokagengi United í gær.
Hlutabréfaverð Manchester United hefur hækkað um meira en 1,5% í fyrstu viðskiptum í dag og stendur í 17,98 dollurum þegar fréttin er skrifuð.
Spenntir fyrir Amorim
Í verðmati UBS, sem Bloomberg greinir frá, er vakin athygli á töluverðri kostnaðarhagræðingu innan Manchester United eftir að enski auðkýfingurinn Jim Ratcliffe eignaðist fjórðungshlut í knattspyrnufélaginu í byrjun árs. Þá eigi tekjustoðir United engar sér líkar í ensku úrvalsdeildinni.
Tryggi United sér bráðlega sæti í Meistaradeild Evrópu á ný þá myndi það leið til jafnvel enn hærra verðmats.
„Það er alls óvíst miðað við slaka frammistöðu upp á síðkastið en mögulega er verið að snúa taflinu við með nýja knattspyrnustjóranum,“ segir í bréfi UBS til viðskiptavina bankans.
Manchester United, sem situr nú í þrettánda sæti úrvalsdeildarinnar, tilkynnti formlega um ráðningu Portúgalans Ruben Amorim í byrjun nóvember en hann tók við sem knattspyrnustjóri félagsins af Hollendingnum Erik ten Hag sem hafði stýrt liðinu í meira en tvö tímabil.
Í verðmati UBS segir að miðað við núverandi markaðsvirði Manchester United sé heildarvirði félagsins um 4,4 sinnum meira en sölutekjur félagsins. Til samanburðar er hlutfallið að meðaltali í kringum 6 hjá sambærilegum íþróttafélögum í Bandaríkjunum.
„Með auknum áhuga meðal einkafjárfesta á íþróttaliðum og -deildum, og áhuga efnaðra einstaklinga á sigurtákns-eignum (e. trophy-assets), þá teljum við að virði Manchester United sé með sterkar stoðir.“