Árni Þór Árnason og fjölskylda hans hóf nýverið að selja ítalska léttvínið When in Rome í verslanir Vínbúðarinnar í gegnum félagið Austurbakki ehf. Það eitt og sér er kannski ekki frásögu færandi en það sem gerir umrætt vín frábrugðið öðru léttvíni í hillum Vínbúðanna eru umbúðir þess. Flestu léttvíni er tappað á glerflöskur en sumt vín er einnig hægt að nálgast í meira magni í svokölluðum beljum. Neytendur sem hugsa meira um verð og vínanda, fremur en gæði, geta svo einnig gripið með sér léttvín í fernu úr hillum Vínbúðanna. Umbúðir When in Rome eru aftur á móti hálfgerð blanda þessara þriggja mismunandi umbúða. Um er að ræða pappaflösku sem pakkað er utan um plastbelg.

Bæði rauðvín og hvítvín frá When in Rome eru nú fáanleg hér á landi. Vörur framleiðandans ættu að höfða sérsaklega til rauðvíns- og hvítvínsunnenda sem er sérlega annt um umhverfið því kolefnisspor pappaflöskunnar er, samkvæmt fyrirtækinu sjálfu, sex sinnum minna en kolefnisspor hefðbundinnar vínflösku úr gleri. Pappaflaskan, sem er kölluð Frugal flaska (e. Frugal Bottle) og er sú fyrsta sinnar tegundar í heimi, er að 94% leyti framleidd úr endurunnum pappa og er þar að auki fimm sinnum léttari en vínflaska úr gleri. Árni bendir á að á meðan það þurfi að fara sérferð með vínflöskur úr gleri á Sorpu í endurvinnslu sé ekkert mál að taka pappaflöskuna í sundur og setja pappann, og plastbelginn innan í, í endurvinnslutunnu. „Þetta gæti ekki verið einfaldara og svo skemmir ekki fyrir að þetta er umhverfisvænn kostur,“ segir hann.

Rauðvínið frá When in Rome er frá Puglia héraðinu á Ítalíu og úr ítölsku þrúgunni Primitivo. Það er framleitt af ítölsku víngerðinni Cantina Sociale Cantolio fyrir breska félagið When in Rome. Hvítvínið á svo uppruna sinn að rekja til héraðsins Abruzzo og er framleitt úr þrúgunni Pecorino af ítalska víngerðarmanninum Manuel Casimirri.

Sonurinn rakst á vörurnar á netrúnti

Aðspurður segir Árni son sinn hafi rekist á vörurnar frá When in Rome fyrir algjöra tilviljun á rúnti um netheima. „Þegar hann sýndi okkur When in Rome fannst okkur þetta auðvitað bráðsniðugt. Aftur á móti var stóra spurningin hvort innihaldið, vínið sjálft, væri drekkandi. Okkur til mikillar ánægju eru þetta mjög góð vín og við ákváðum því að hafa samband við fyrirtækið sem framleiðir vínin með það í huga að flytja vínið inn til Íslands. Það er breskt fyrirtæki sem stendur á bakvið When in Rome og það er með vínsérfræðinga sem hjálpar þeim að kaupa inn vín frá meðalstórum ítölskum vínfyrirtækjum. Það hefur löngum tíðkast að innihald léttvínsbeljanna sé oftar en ekki afgangsvín frá stórum framleiðendum. Gæði When in Rome vínanna komu okkur því skemmtilega á óvart.“

Árni segir Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins (ÁTVR) hafa tekið mjög vel í umsókn Austurbakka um hillupláss í Vínbúðunum. „Þeim leist strax vel á þessi umhverfisvænu vín.“ Vínin fóru í sölu í völdum Vínbúðum í byrjun mánaðar og segir Árni söluna hafa farið vel af stað. „Það má náttúrulega ekki auglýsa áfengi á Íslandi svo það getur stundum verið erfitt að byrja að selja nýja vöru án þess að mega kynna hana fyrir almenningi. Þrátt fyrir að við höfum ekkert getað kynnt vöruna hefur salan farið vel af stað og neytendur eru greinilega spenntir fyrir að kaupa góð vín í umhverfisvænum umbúðum.“