Rebekka Kühnis opnar sýninguna when not looking (þegar enginn sér til) í Gallerí Fold laugardaginn 30. september.

Hún er fædd 1976 og ólst upp í Windisch í Sviss. Rebekka stundaði nám við Hochschule der Künste, Bern, þar sem hún fékk meistaragráðu í list og kennslufræði og hefur síðan þá starfað sem listamaður og kennari.

Þegar hún var tvítug vann hún tvö sumur við bændagistingu á Suðvesturlandi. Strax fann hún fyrir sterkum tengslum við landið og lýsti því sem tilfinningu um að vera komin heim.

Það tók hana hins vegar næstum tuttugu ár til viðbótar að koma til baka, í þetta skiptið til að skoða landið fótgangandi með tjaldinu sínu í nokkra mánuði. Hughrifin og skynjunin sem hún safnaði í ferðum sínum rataði smám saman inn í list hennar þangað til íslenskt landslag var orðið aðalviðfangsefni Rebekku. Árið 2015 ákvað hún að flytja til Íslands og hefur síðan búið og starfað nálægt Akureyri.

„Ég upplifi íslenska náttúru sem ósnortna og ekki eins skilgreinda og afmarkaða og náttúruna í heimalandi mínu. Það er eins og allt sé kvikt og breytilegt og að ég sé hluti þess alls,“ segir Rebekka.

Í upphafi leiddi athugun hennar á íslenskri náttúru til kúlupennateikninga en nýjustu verk hennar samanstanda þó fyrst og fremst af olíumálverkum. „Í málverkum mínum og teikningum leikur þessi upplifun stórt hlutverk. Línur, lagskipting, gegnsæi, hreyfing, og leikurinn að þyngdaraflinu eru þannig persónuleg leið til tjáningar.“