Una Dögg Guðmundsdóttir er 37 ára Seltirningur. Hún starfar sem heimilisfræðikennari í Mýrarhúsaskóla og stefnir á að klára meistaragráðu í Mannauðsstjórnun næsta vor frá HÍ.

Una Dögg Guðmundsdóttir.
Una Dögg Guðmundsdóttir.

„Ég er mikil áhugamanneskja er kemur að matargerð og bakstri og elska að útfæra mínar eigin uppskriftir. Ég held úti instagram síðunni @unabakstur og deili þar með fylgjendum mínum hinum ýmsu hugmyndum fyrir skemmtileg tilefni svo sem hugmyndum af uppskriftum, vikumatseðlum og fleiru skemmtilegu. Ég reyni að einfalda hlutina er kemur að matagerð og bakstri því ég þekki það sjálf að hafa ekki alltaf mikinn tími í lok vinnudagsins til þess að elda eftir flóknum uppskriftum,“ segir Una Dögg.

Una deilir uppskrift vikunnar með lesendum sem er sumarlegt kjúklingasalat og hennar uppáhalds eftirréttur, marengskaka með karamellubráð og vanilluís á milli.

Kjúklingasalat með sumarlegu ívafi

Uppskriftin miðast við fjóra.

Innihald:

  • Um 800g Kjúklingalundir/bringur
  • 1 stk Thai Satay sósa
  • 1 stk Granateplakjarni (berin)
  • 2 stk Ferskt salat
  • 1 stk Tómatar
  • 250 g Jarðarber
  • 1 stk Kasjúhnetur
  • Brauðteningar að vild.

Aðferð:

  • Byrjið á að marínera lundirnar í Thai Satay sósunni í að lágmarki 1 klst.
  • Setjið lundirnar á grillið og eldið vel í gegn.
  • Skerið niður tómatana og gúrkuna, takið berin úr granateplinu og saxið niður hneturnar. Blandið saman við salatið.
  • Þegar kjúklingalundirnar eru tilbúnar eru þær lagðar yfir salatið og svo er toppurinn að strá smá parmesan-osti yfir og brauðteningum.

Fullkomið er að bjóða upp á sumarlegan sódakokteil eða jafnvel kalt hvítvín með.

Marengskaka með ís á milli

Marengsbotnar

Innihald:

  • 4 stk. Eggjahvítur
  • 200 g Sykur
  • 2 tsk. Vanilludropar
  • 1 líter Vanilluís

Aðferð:

  • Byrjið á að stilla ofninn á 140 gráður blástur.
  • Klæðið bökunarplötu með bökunarpappír.
  • Þeytið eggjahvítur þar til þær fara að freyða vel og hellið sykrinum hægt og rólega saman við, vanilludroparnir fara svo næst saman við.
  • Þeytið vel saman eða þar til að stíf marengsblanda myndast.
  • Hellið marengsblöndunni á bökunarpappírinn og myndið tvo jafna hringi.
  • Bakið í 40 mínútur, takið út úr ofninum og látið kólna.
  • Setjið um 1 líter af vanilluís á milli botnanna.

Karamellukrem

Innihald:

  • 4 stk Eggjarauður
  • 60 g Flórsykur
  • 50 g Smjör
  • 200 g Mjólkursúkkulaði

Aðferð:

  • Bræðið saman í potti smjör og súkkulaði við vægan hita og hrærið vel í, leyfið aðeins að kólna.
  • Hrærið saman eggjarauður og flórsykur.
  • Bætið súkkulaðinu saman við flórsykursblönduna og hrærið vel saman og hellið yfir kökuna og milli botnanna.

Verði ykkur að góðu!