Matreiðslumeistarinn og hestakonan Margrét Ríkharðsdóttir deilir einum vinsælasta rétti Duck&Rose með lesendum.
Margrét er mikil stemingskona, að eigin sögn. En hún starfar sem yfirkokkur á Duck&Rose ásamt því að vera í eigendahópi veitingastaðarins.
Árið 2010 útskrifaðist hún sem kokkur en fimm árum seinna lauk hún við meistaranámið samhliða því að vera yfirkokkur á Bryggjunni Brugghús. En þar starfaði hún áður en henni bauðst staða yfirkokks á Duck&Rose fyrir rúmlega þremur árum.
„Uppskriftin er frekar þæginleg, einföld og einstaklega hugguleg með góðu hvítvíni. Ég mæli svo með því að kíkja til Sigga í fiskbúðina á Sundlaugarvegi til þess að versla sjávarfang í réttinn! Það er líka geggjað að bæta við bláskel þegar hún er fáanleg.“
Uppskriftin er ætluð fyrir fjóra.
Innihald:
Sítrónusósa
- 4 msk Smjör
- 1 msk Hveiti
- 3 Hvítlauksgeirar, smátt skornir
- ½ bolli Hvítvín
- 2 ½ msk sítrónusafi
- 1 msk Sítrónubörkur frá Mabrúka
- 1 msk Sítrónublanda frá Mabrúka
- 2 bollar Rjómi
- Salt og pipar frá Mabrúka
Pasta & Skelfiskur
- Tagliatelle, ferskt 1 pakki
- Tígrisrækjur og Hörpuskel eftir smekk
- Börkur af ferskri sítrónu
- Basil
- Svartur pipar frá Mabrúka
Aðferð:
Sítrónusósa
- Smjör er brætt í potti þangað til það fer að krauma.
- Bætið hveitinu saman við, hvítlauknum og kryddinu.
- Hrærið vel svo úr verði smjörbolla.
- Þegar hún er komin saman bætið þá hvítvíni og sítrónusafa saman við hrærið vel.
- Setjið loks rjómann saman við og kryddið til með salti og pipar.
- Látið hitna upp að suðu.
- Slökkvið undir sósunni.
Pasta & Skelfiskur
- Ferskt pasta soðið samkæmt leiðbeningum.
- Skelfiskur steiktur á heitri pönnu og fiskurinn kryddaður með sítrónublöndu og salti.
- Þegar pastað er soðið er vatninu hellt af pastanu og fiskurinn sett út í sósuna og hitað örlítið saman.
- Skreytið með ferskri basiliku og rífið ferskan sítrónubörk yfir.