Knattspyrnudeild Vals tapaði 67,4 milljónum króna á árinu 2022 eftir 51,6 milljóna hagnað árið 2021, samkvæmt nýbirtum ársreikningi félagsins. Gert var ráð fyrir 54,2 milljóna tapi á árinu og varð tapið því um 13 milljónum meira en áætlað var.
Árið 2022 var upp og ofan hjá knattspyrnudeild félagsins. Kvennalið Vals varð Íslandsmeistari í þriðja skiptið á fjórum árum. Karlaliðið lenti hins vegar í sjötta sæti Bestu deildar, 28 stigum frá toppliði Breiðabliks.
Rekstrartekjur knattspyrnudeildar Vals námu 319 milljónum króna en voru 375 milljónir árið 2021. Mestu munar um liðinn aðrar rekstrartekjur sem lækkar úr 198 milljónum króna í 71 milljónir á milli ára.
Þá jukust tekjur vegna styrkja og auglýsinga um 67 milljónir króna á milli ára og námu 215 milljónum króna.
Rekstrarkostnaður knattspyrnudeildar Vals fór úr 344 milljónum í 394 milljónir króna á milli ára. Þar af hækkuðu laun og launatengd gjöld um rúmar 50 milljónir, úr 253 milljónum í 307 milljónir króna á milli ára.
Eigið fé deildarinnar nam 78 milljónum um síðustu áramót samanborið við 148 milljónir árið áður.
33 milljón króna leikmannahópar
Leikmannahópar Vals eru bókfærðir á samtals 33 milljónir króna. Þar af er karlaliðið metið á 26 milljónir en kvennaliðið á 7 milljónir.
Hagnaður af sölu leikmanna nam 8,2 milljónum króna samanborið við 21 milljónir árið 2021. Þá greiddi knattspyrnudeild Vals 4,9 milljónir króna til umboðsmanna á árinu.