Síðustu tólf ára hafa Ólafur Vigfússon og María Anna Clausen árlega gefið út tímaritið Veiði. Hefur blaðið verið blanda af fróðleik um stanga- og skotveiði sem og vörulisti enda reka hjónin verslunina Veiðihornið í Síðumúla.

Verslunin fagnar 25 ára afmæli á þessu ári og af því tilefni er blaðið einkar veglegt í ár. Enn meiri áhersla hefur verið lögð á greinar og og viðtöl en áður.

Fyrst ber að nefna merkilegt viðtal við þann mikla veiðimann Gylfa Pálsson, sem fagnaði 90 ára afmæli sínu fyrr á árinu. Gylfi er þekktur í veiðiheiminum en einnig fyrir utan hann því hér áður var hann þýðandi og þulur náttúrulífsmynda sem sýndar voru í Sjónvarpinu.

Í blaðinu er einnig skemmtilegt viðtal við Hilmar Þór Sigurjónsson, þrettán ára dreng með veiðidellu á lokastigi. Þá er rætt við Esther Finnbogadóttur, formann Árdísa, félagsskap kvenna í veiði, sem stofnað var árið 2001 en um 100 konur eru í félaginu.

Viðtöl, fróðleikur og uppskriftir

Áhugavert viðtal er við Tarquin Millington Drake í tímaritinu, en hann hefur selt Bretum og öðrum útlendingum veiðileyfi í íslenskar ár í meira en þrjá áratugi.

Rætt er við hjónin Ólaf og Maríu Önnu um veiði á framandi slóðum en fáir Íslendingar hafa ferðast jafn víða í þeim tilgangi að stunda stanga- og skotveiði. Segja þau meðal annars frá ferð sinni  til Zambíu, þar sem þau veiddu í Zambesi-fljótinu, sem og ferð til Farquhar kóralrifsins, sem er eitt af mörgum slíkum í Seychelleseyjaklasanum.

Ýmislegt annað skemmtilegt er að finna í tímaritinu eins og til dæmis uppskriftir, fróðleik um flugur, veiðihjól og stangir. Þá gefur ljósmyndarinn Kjartan Þorbjörnsson, betur þekktur sem Golli, lesendum góð ráð um myndatökur í veiði.
Áhugasamir geta nálgast ókeypis eintak af tímaritinu í Veiðihorninu.

Sérblað um stangaveiði fylgir Viðskiptablaðinu, sem kemur út í fyrramálið. Áskrifendur munu geta nálgast blaðið kl. 19.30 í kvöld með því smella á hlekkinn Blöðin efst á forsíðu vb.is.