Guðrún Karls Helgudóttir er tilnefnd til biskupskjörs í Þjóðkirkju Íslands en Guðrún er sóknarprestur í Grafarvogssókn í Reykjavík og hefur þjónað sem prestur í Svíþjóð og á Íslandi.

„Ég var með mikla bíladellu sem barn og uppáhaldsbíllinn, sá allra flottasti í mínum huga var Willys jeppi. Mér þótti líka blái Landróverinn hans afa líka mjög flottur og er enn veik fyrir gömlum Landróverum," segir Guðrún.

Hver er eftirminnilegasti bíllinn sem þú hefur átt?

„Það er án efa Teslan mín. Ég eignaðist Teslu Y fyrir tveimur árum og þetta er í fyrsta sinn sem ég á bíl sem mér finnst virkilega gaman að keyra. Það er svolítið eins og að keyra símann minn. Allt pínulítið skemmtilegra en ég hef átt að venjast auk þess sem ég er mjög ánægð með viðbragðið, hann er svo snöggur af stað. Þetta er reyndar aðeins annar bíllinn sem ég eignast nýjan."

Hver er eftirminnilegasta bílferðin?

„Það var þegar ég tók strætó frá Sorento á Ítalíu og yfir á Amalfi ströndina í myrkri, rigningu og þrumum og eldingum síðastliðið haust. Vegirnir þarna eru hlykkjóttir með eindæmum og þverhnípt niður niður í sjó. Já, og varla gert ráð fyrir að tveir bílar geti mæst. Bílstjórinn lét þessa smámuni ekki hamla sér neitt og keyrði heldur greitt fyrir minn smekk og lá svo á flautunni þannig að umferðin á móti vissi af ferðum hans. Ég er nokkuð viss um að ég var ekki sú eina sem lá á bæn í þessari ferð. Auk þess á ég margar minningar frá bílferðum á Vestfjörðum í vondum veðrum þar sem varla sást úr augum og þegar við þurftum að stoppa vegna þess að það sauð á bílnum á leið upp á heiðar."

Hver er besti bílstjóri sem þú þekkir?

„Ég er besti bílstjórinn í bænum og í borgum en maðurinn minn, Einar Sveinbjörnsson og Arna Ýrr vinkona mín eru bæði betri en ég úti á vegum. Þau hafa bæði tekið við akstrinum af mér þegar þeim finnst ég vera aðeins of varkár á ferðalögum.

En sá versti?

„Ég þekki engan bílstóra sem er verri en ég. Ég er samt mjög góður bílstjóri."

Hvað hlustarðu helst á í bílnum?

„Ég nota svolítið tímann í bílnum til að hlusta á útvarp. Helst vil ég hlusta á eitthvað spjall t.d. góða þætti í á einhverri stöðinni t.d. Rás 1 eða á podkast eða hljóðbók. Ekki er verra ef fréttir eru í útvarpinu einmitt þegar ég er í bílnum. Ég hlusta sjaldan á tónlist í bíl. "

Hvort myndirðu keppa í kappakstri eða torfæru?

„Ég vel torfæru. Ég er svo mikil skræfa með suma hluti að ég myndi aldrei leggja í kappakstur."

Hver er draumabíllinn?

„Draumabíllinn er enn sem komið er Tesla Y sem ég á núna. Sjálfsagt munu koma enn skemmtilegri rafmagnsbílar í framtíðinni en mig langar alls ekki í bensínbíl aftur ef ég kemst hjá því. Það er ákveðið frelsi fólgið í því að þurfa ekki að velta fyrir sér bensínverði og finnast ég ekki vera að menga umhverfið þegar ég er að keyra."