Í Gallerí Fyrirbæri að Ægisgötu 7 stendur nú yfir samsýningin Peace of Art, þar sem gestum gefst einstakt tækifæri til að kynnast sköpun listamanna og fjárfesta í samtímalist. Á sýningunni eru listaverk sem listamenn hafa unnið að á vinnustofum sínum undanfarin ár, en galleríið hýsir einnig vinnustofur þeirra.
List fyrir alla
Í tengslum við sýninguna leggja listamennirnir sérstaka áherslu á að gera samtímalist aðgengilega sem flestum. Af þessu tilefni hafa þeir valið verk sem kosta undir 50.000 krónur og eru mörg þeirra á sérstökum afslætti aðeins í þetta eina sinn. Því er um einstakt tækifæri að ræða fyrir þá sem vilja eignast listaverk eða hefja eigin safn.
„Við, listamennirnir sjálfir, sitjum yfir sýninguna og erum alltaf tilbúin að eiga samtal við gesti um verkin, vinnustofurnar og starfsemina í heild. Við hvetjum alla til að koma í heimsókn til okkar og upplifa listina og sköpunina í návígi.“ segir í tilkynningu frá Gallerí Fyrirbæri.