Dagana 1.–3. janúar 2025 verður Auglýsingahlé Billboard haldið á yfir 600 stafrænum skjáflötum um land allt. Að þessu sinni prýðir nýtt verk myndlistarmannsins Roni Horn skjáina, en yfir 80% höfuðborgarbúa munu fá tækifæri til að upplifa listina dag hvern. Markmið verkefninsins er að lýsa upp skammdegið og auka aðgengi almennings að list.
Roni Horn, sem er fædd í New York en hefur átt djúp tengsl við Ísland síðustu fimm áratugi, er þekkt fyrir áhrifamikil verk sín sem hafa ratað á sýningar í virtustu söfnum heims. Með Auglýsingahléi Billboard stígur hún inn í daglegt líf borgarbúa með nýju verki sínu, sem verður sýnt í strætóskýlum og á stórum skjáum við fjölfarnar götur.
Verkefnið er samstarfsverkefni Billboard, Y gallerís og Listasafns Reykjavíkur, og hefur áður hýst verk eftir Hrafnkel Sigurðsson, Sigurð Ámundason og Harald Jónsson. Þetta er einstakt tækifæri til að njóta listsköpunar þar sem hún er óvænt og aðgengileg.