Bandaríski tónlistarmaðurinn Scott Blum hefur stofnað útgáfufyrirtæki sem er tileinkað íslenskri tónlist. Fyrirtækið heitir FOUND en Scott segist hafa fengið hugmyndina rúmu fyrir ári síðan þegar hann var staddur á Íslandi.

Scott hefur verið lengi í tónlistarbransanum en hann stofnaði meðal annars iMusic árið 1993. Hann gekk til liðs við hugbúnaðarfyrirtæki undir stjórn Paul Allen, meðstofnanda Microsoft, til að framleiða geisladisk fyrir tónlistarmanninn Peter Gabriel.

„Á þeim tíma var netið fyrst farið að vera vinsælt þannig ég yfirgaf hugbúnaðarfyrirtækið til að stofna iMusic þar sem ég trúði því að á netinu leyndust margir möguleikar fyrir tónlist. Margir sögðu að það hljómaði alveg út í hött en ég trúði því.“

Hann segir í samtali við Viðskiptablaðið að eftir að hafa stofnað iMusic seldi hann þjónustuna svo til fyrirtækis sem kallaðist Artist Direct og hafi það fyrirtæki á endum selt þjónustuna til Apple. Eftir marga áratugi í tónlistarbransanum hafi hann svo viljað kúpla sig út úr viðskiptaheiminum í von um að öðlast nýtt viðhorf.

„Þegar ég fór frá Íslandi þá varð ég svo leiður að hafa ekki lengur aðgang að þessari tónlistarsenu"

„Ég hugsaði bara hvert gæti ég farið til að komast sem lengst í burtu frá Suður-Kaliforníu og svarið á endanum var Ísland. Ég leigði mér íbúð í vesturbænum því ég vildi sjá hvernig það væri að búa í Reykjavík.“

Hann segist hafa eytt miklum tíma í plötubúðum Reykjavíkur og hafi hann verið duglegur að spyrja starfsmenn út í hina ýmsu íslensku tónlistarmenn.

„Ég vissi náttúrulega að þessum fimm frægustu Íslendingum sem allir þekkja, en svo komst ég að því að það voru fleiri hundruð tónlistarmenn sem ég hafði aldrei heyrt um og ég varð bara strax ástfanginn. Svo þegar ég fór frá Íslandi þá varð ég svo leiður að hafa ekki lengur aðgang að þessari tónlistarsenu. Þannig mér fannst að með því að deila þessari tónlist með heiminum þá gæti ég haldið í senuna og líka hjálpað öllu þessu ótrúlega tónlistarfólki.“

Scott segir að hingað til hafi viðbrögðin verið mjög jákvæð en fáir vestanhafs hafi hins vegar haft tækifæri til að kynnast tónlistarfólkinu. Á landkynningarhátíðinni Taste of Iceland, sem skipulagt er af Íslandsstofu og Utanríkisráðuneytinu, breyttist það og þá fengu Bandaríkjamenn að kynnast íslensku pönk sveitinni Gróa og að sögn Scott hafi viðbrögðin verið stórkostleg.

Íslenska pönksveitin Gróa stal senunni í New York á Taste of Iceland hátíðinni.
© Gabriel Backman Waltersson (GBW)

„Ég er að gera mitt allra besta til að vinna eins mikið og ég get með íslensku listafólki. Mig langar í raun bara að taka alla listmenningu landsins og vefja hana í gjafapappír.“

Það sem heillar Scott mest við íslensku tónlistarsenuna er hversu „landamæralaus“ hún er. Hann minnist til dæmis á þegar hann var á göngu um Reykjavík á menningarnótt og hversu mikið það hafi komið honum á óvart að sjá fullt af mismunandi tónlist samankomna á einum stað.

Hann segir að jafnvel fyrir menningarnótt hafi hann sótt ýmsa viðburði og tók eftir því að pönk sveitir, rokk sveitir og djass sveitir hefðu öll deilt sama sviðinu á sama kvöldinu. Slíkt þekkist ekki í Bandaríkjunum þar sem fólk eigi það til að einangra smekk sinn og hafa samfélagsmiðlar einnig slæm áhrif á það.

„Þegar bandarískir tónlistarunnendur koma til Íslands og ganga inn í plötubúðir þá spyrja örugglega 9 af hverjum 10 hver næsta Björk er eða hver er næsta Sigur Rós. Starfsmenn segja þá að Björk og Sigur Rós eru þegar til þannig best væri bara að kaupa plöturnar þeirra. Í Bandaríkjunum er fólk sem er alltaf að spá í hver væri næsta Taylor Swift, því það er tónlistin sem þeir kunna vel við. Á Íslandi eru þið hins vegar mun uppteknari af því einstaklingar,“ segir Scott.