VISA Ísland hefur samið við Skýrr hf. um kaup og innleiðingu á viðskiptagreindarbúnaði frá Business Objects, ásamt ráðgjöf við uppbyggingu vöruhúss gagna. Samningurinn lýtur að almennri skýrslugerð með Business Objects og greiningu upplýsinga úr upplýsingakerfum og vöruhúsum gagna, ásamt samhæfingu upplýsinga milli kerfa.

"Forskot í samkeppni byggist á skilvirkri ákvarðanatöku. Með notkun Business Objects og viðskiptagreindar við markvissa úrvinnslu gagna verða til verðmætar upplýsingar, sem lagðar eru til grundvallar bættum árangri og velgengni í rekstri," sagði Hreinn Jakobsson, forstjóri Skýrr, við undirritun samningsins.

Hugbúnaður á sviði viðskiptagreindar ("business intelligence") miðar að því að umbreyta gögnum í upplýsingar og upplýsingum í þekkingu. Í þessu ferli felst úrvinnsla, greining og dreifing réttra upplýsinga á réttum tíma til fólks sem starfar við ákvarðanatöku í atvinnulífinu. Gæði ákvarðana geta aukist til muna við beitingu viðskiptagreindarkerfa.

Business Objects inniheldur tól til að samhæfa gögn úr ólíkum gagnagrunnum, gagnamörkuðum og vöruhúsum gagna. Business Objects veitir djúpa og breiða sýn á hvaðeina í rekstri fyrirtækja. Hugbúnaður frá Business Objects samanstendur af samhæfðum kerfishlutum, sem uppfylla þarfir fyrirtækja á sviði viðskiptagreindar.

Meðal notenda Business Objects á Íslandi eru Fjársýsla ríkisins, Háskóli Íslands, Kauphöll Íslands, KB banki, Kreditkort, Landsbankinn, Landspítali - Háskólasjúkrahús, Og Vodafone, Síminn, Sparisjóðirnir, Tollstjórinn í Reykjavík, Tryggingamiðstöðin og Vinnumálastofnun.